Þá mælti Mörður til dóttur sinnar: "Seg þú mér nú allt það er á meðal ykkar
er og lát þér ekki í augu vaxa."
"Svo mun vera verða," segir hún. "Eg vildi segja skilið við Hrút og má eg
segja þér hverja sök eg má helst gefa honum. Hann má ekki hjúskaparfar eiga
við mig svo að eg megi njóta hans en hann er að allri náttúru sinn annarri
sem hinir vöskustu menn."
"Hversu má svo vera?" segir Mörður, "og seg mér enn gerr."
Hún svarar: "Þegar hann kemur við mig þá er hörund hans svo mikið að hann má
ekki eftirlæti hafa við mig en þó höfum við bæði breytni til þess á alla
vega að við mættum njótast en það verður ekki. En þó áður við skiljum sýnir
hann það af sér að hann er í æði sínu rétt sem aðrir menn."
Mörður mælti: "Vel hefir þú nú gert er þú sagðir mér. Mun eg leggja ráð á
með þér það er þér mun duga ef þú kannt með að fara og bregðir þú hvergi af.
Nú skalt þú heim ríða fyrst af þingi og mun bóndi þinn heim kominn og taka
við þér vel. Þú skalt vera við hann blíð og eftirmál og mun honum þykja góð
skipan á komin. Þú skalt enga fáleika á þér sýna. En þá er vorar skalt þú
kasta á þig sótt og liggja í rekkju. Hrútur mun engum getum vilja um leiða
um sóttarfar þitt og ámæla þér í engu, heldur mun hann biðja að allir geymi
þín sem best. Síðan mun hann fara í fjörðu vestur og Sigmundur með honum og
mun hann flytja allt fé sitt vestan úr fjörðum og vera í brautu lengi
sumars. En þá er menn ríða til þings og allir menn eru riðnir úr Dölum, þeir
er ríða ætla, þá skalt þú rísa úr rekkju og kveðja menn til ferðar með þér.
En þá er þú ert albúin þá skalt þú ganga til hvílu þinnar og þeir menn með
þér sem förunautar þínir eru. Þú skalt nefna votta hjá rekkjustokki bónda
þíns og segja skilið við hann lagaskilnaði sem þú mátt framast að
alþingismáli réttu og allsherjarlögum. Slíka vottnefnu skalt þú hafa fyrir
karldyrum. Síðan ríð þú í braut og ríð Laxárdalsheiði og svo til
Holtavörðuheiðar því að þín mun eigi leitað til Hrútafjarðar og ríð þar til
er þú kemur til mín og mun eg þá sjá fyrir málinu og skalt þú aldrei síðan
koma honum í hendur."