Þá sendi hann mann eftir þeim Hrúti og Höskuldi. Þeir fóru þegar. Og er þeir
komu á fund Marðar stóð hann upp í mót þeim og fagnaði þeim vel og bað þá
sitja. Töluðu þeir lengi og fór tal þeirra vel.

Þá mælti Mörður til Hrúts: "Hví þykir dóttur minni svo illt vestur þar?"

Hrútur mælti: "Segi hún til ef hún hefir sakagiftir nokkurar við mig."

En þær urðu engar upp bornar við Hrút. Þá lét Hrútur eftir spyrja nábúa sína
og heimamenn hversu hann gerði til hennar. Þeir báru honum gott vitni og
sögðu hana ráða öllu því er hún vildi.

Mörður mælti: "Heim skalt þú fara og una vel við ráð þitt því að honum ganga
öll vitni betur en þér."

Síðan reið Hrútur heim af þingi og kona hans með honum og var nú vel með
þeim um sumarið. En þá er vetraði þá dró til vanda um samfarar þeirra og var
þess verr er meir leið á vorið.

Hrútur átti enn ferð vestur í fjörðu að fjárreiðum sínum og lýsti yfir því
að hann mundi eigi til alþingis ríða. Unnur talaði fátt um. Hrútur fór þá er
hann var til þess búinn.


7. kafli

Nú líður til þings framan. Unnur talaði við Sigmund Össurarson og spurði ef
hann vildi ríða til þings með henni. Hann kveðst eigi ríða mundu ef Hrúti
frænda hans þætti verr.

"Því kveð eg þig til," segir hún, "að eg á á þér helst vald allra manna."

Hann svaraði: "Gera mun eg þér kost á þessu. Þú skalt ríða vestur með mér
aftur og hafa engi undirmál við Hrút eða mig."

Hún hét því. Síðan ríða þau til þings.

Mörður var á þingi, faðir hennar. Hann tók við henni allvel og bað hana vera
í búð sinni meðan þingið væri. Hún gerði svo.

Mörður mælti: "Hvað segir þú mér frá Hrúti félaga þínum?"

Hún svarar: "Gott má eg frá honum segja það allt er honum er sjálfrátt."

Mörður varð hljóður við og mælti: "Það býr þér nú í skapi dóttir að þú vilt
að engi viti nema eg og munt þú trúa mér best til úrráða um þitt mál."

Þá gengu þau á tal þar er engir menn heyrðu þeirra viðurmæli.