Þá buggust þeir bræður og Össur með þeim að ríða austur til brúðlaups Hrúts
og riðu við sex tigu manna. Þeir riðu þar til er þeir koma austur á
Rangárvöllu. Þar var fjöldi fyrirboðsmanna. Skipuðust menn þar í sæti en
konur skipuðu pall og var brúðurin heldur döpur. Drekka þeir veisluna og fer
hún vel fram. Mörður greiddi út heimanfylgju dóttur sinnar og reið hún
vestur með Hrúti. Þau riðu þar til er þau komu heim. Hrútur fékk henni öll
ráð í hendur fyrir innan stokk og líkaði það öllum vel. En fátt var um með
þeim Hrúti um samfarar og fer svo fram allt til vors.

Og þá er voraði átti Hrútur för í Vestfjörðu að heimta fyrir varning sinn.
En áður hann færi heiman talaði Unnur við hann: "Hvort ætlar þú aftur að
koma áður menn ríða til þings?"

"Hvað er að því?" segir Hrútur.

"Eg vil ríða til þings," segir hún, "og finna föður minn."

"Svo skal þá vera," sagði hann, "og mun eg ríða til þings með þér."

"Vel er það og," segir hún.

Síðan fór hann heiman og vestur í fjörðu og byggði allt féið og fór þegar
vestan.

Og er hann kom heim bjó hann sig þegar til þings og lét ríða með sér alla
nábúa sína. Höskuldur reið og, bróðir hans.

Hrútur mælti við konu sína: "Ef þér er jafnmikill hugur á að fara til þings
sem þú lést þá bú þú þig og ríð til þings með mér."

Hún bjó sig skjótt og síðan ríða þau uns þau koma til þings.

Unnur gekk til búðar föður síns. Hann fagnaði henni vel en henni var
skapþungt nokkuð.

Og er hann fann það mælti hann til hennar: "Séð hefi eg þig með betra bragði
eða hvað býr þér í skapi?"

Hún tók að gráta og svaraði engu.

Þá mælti hann við hana: "Til hvers reiðst þú til alþingis ef þú vilt eigi
svara mér eða segja mér trúnað þinn eða þykir þér eigi gott vestur þar?"

Hún svaraði: "Gefa mundi eg til alla eigu mína að eg hefði þar aldrei
komið."

Mörður mælti: "Þessa má eg skjótt vís verða."