6. kafli

Hrútur var með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. En er voraðist gerðist
Hrútur hljóður mjög.

Gunnhildur fann það og talaði til hans er þau voru tvö saman: "Ert þú
hugsjúkur, Hrútur?" sagði hún.

"Það er mælt," segir Hrútur, "að illt er þeim er á ólandi er alinn."

"Vilt þú til Íslands?" segir hún.

"Það vil eg," sagði hann.

"Átt þú konu nokkura út þar?" segir hún.

"Eigi er það," sagði hann.

"Það hefi eg þó fyrir satt," segir hún.

Síðan hættu þau talinu.

Hrútur gekk fyrir konung og kvaddi hann.

Konungur mælti: "Hvað vilt þú nú Hrútur?"

"Eg vil beiðast herra að þér gefið mér orlof til Íslands."

"Mun þar þinn sómi meiri en hér?" segir konungur.

"Eigi mun það vera," sagði Hrútur, "en það verður hver að vinna er ætlað
er."

Gunnhildur mælti: "Við ramman mun reip að draga og gefið honum gott orlof að
hann fari sem honum líkar best."

Þá var ært illa í landi en þó fékk konungurinn honum mjöl sem hann vildi
hafa.

Nú býst hann út til Íslands og Össur með honum. Og er þeir voru búnir þá
gekk Hrútur að finna konunginn og Gunnhildi.

Gunnhildur leiddi hann á eintal og mælti til hans: "Hér er gullhringur er eg
vil gefa þér" og spennti á hönd honum.

"Marga gjöf góða hef eg af þér þegið," segir Hrútur.

Hún tók höndum um háls honum og kyssti hann og mælti: "Ef eg á svo mikið
vald á þér sem eg ætla þá legg eg það á við þig að þú megir engri munúð fram
koma við þá konu er þú ætlar þér á Íslandi að eiga en fremja skalt þú mega
við aðrar konur vilja þinn. Og hefir nú hvortgi okkað vel. Þú trúðir mér
eigi til málsins."

Hrútur hló að og gekk í braut.

Síðan fór hann til fundar við konunginn og þakkaði honum hversu höfðinglega
hann hafði alla hluti til hans gert. Konungurinn bað hann vel fara og kvað
Hrút vera hinn röskvasta mann og vel kunna að vera með tignum mönnum.

Hrútur gekk síðan til skips og sigldi í haf. Þeim gaf vel byri og tóku
Borgarfjörð. En þegar er skip var landfast reið Hrútur vestur heim en Össur
lét ryðja skipið. Hrútur reið á Höskuldsstaði og tók bróðir hans vel við
honum og sagði Hrútur honum allt um ferðir sínar. Síðan sendi hann mann
austur á Rangárvöllu til Marðar gígju að búast við boði. En þeir bræður riðu
síðan til skips og sagði Höskuldur Hrúti fjárhagi hans og hafði mikið á
aflast síðan Hrútur fór í braut.

Hrútur mælti: "Minni mun umbun verða bróðir en skyldi en fá vil eg þér mjöl
svo sem þú þarft í bú þitt í vetur.

Síðan réðu þeir skipinu til hlunns og bjuggu um en færðu varning allan
vestur í Dala.

Hrútur var heima á Hrútsstöðum til sex vikna