Þeir Sóti fórust hjá. Sigldi hann aftur til Noregs. Kom hann við
Limgarðssíðu og gekk þar á land. Þar mætti hann Ögmundi sveini Gunnhildar.

Ögmundur kenndi Sóta þegar og spyr hann: "Hve lengi ætlar þú hér að vera?"

"Þrjár nætur," segir Sóti.

"Hvert ætlar þú þá?" sagði Ögmundur.

"Vestur til Englands," segir Sóti, "og koma aldrei til Noregs meðan ríki
Gunnhildar er."

Ögmundur gekk þá í braut og fer á fund Gunnhildar því að hún var þaðan
skammt á veislu og Guðröður sonur hennar. Ögmundur sagði Gunnhildi frá ætlan
Sóta. En hún bað þegar Guðröð son sinn fara og taka Sóta af lífi.

Guðröður fór þegar og kom á óvart Sóta og lét leiða hann á land upp og festa
þar upp en tók fé allt og færði móður sinni. Hún fékk til menn að færa allt
féið á land upp og austur til Konungahellu og fór sjálf þangað.

Hrútur hélt aftur um haustið og hafði fengið fjár mikils og fór þegar á fund
konungs og hafði af honum góðar viðtökur. Hann bauð þeim að hafa slíkt af
fénu sem þeir vildu en konungurinn tók af þriðjunginn. Gunnhildur segir
Hrúti að hún hafði tekið erfðina en látið drepa Sóta. Hann þakkaði henni og
gaf henni allt hálft við sig.


6. kafli

Hrútur var með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. En er voraðist gerðist
Hrútur hljóður mjög.

Gunnhildur fann það og talaði til hans er þau voru tvö saman: "Ert þú
hugsjúkur, Hrútur?" sagði hún.

"Það er mælt," segir Hrútur, "að illt er þeim er á ólandi er alinn."

"Vilt þú til Íslands?" segir hún.

"Það vil eg," sagði hann.

"Átt þú konu nokkura út þar?" segir hún.

"Eigi er það," sagði hann.

"Það hefi eg þó fyrir satt," segir hún.

Síðan hættu þau talinu.

Hrútur gekk fyrir konung og kvaddi hann.

Konungur mælti: "Hvað vilt þú nú Hrútur?"