Hann svaraði: "Þá gefur vel til fjár að vinna og reki menn af sér tjöldin og
búist við sem hvatlegast á hverju skipi. Skip mitt skal vera í miðjum
flotanum."

Síðan greiddu þeir róðurinn á skipum Hrúts. Og þegar er hvorir heyrðu mál
annarra stóð Atli upp og mælti: "Þér farið óvarlega. Sáuð þér eigi að
herskip voru í sundinu eða hvert er nafn höfðingja yðvars?"

"Hrútur heiti eg," segir hann.

"Hvers maður ert þú?" segir Atli.

"Hirðmaður Haralds konungs gráfeldar," segir Hrútur.

Atli mælti: "Lengi höfum við feðgar eigi kærir verið Noregskonungum yðrum."

"Ykkur ógæfa er það," segir Hrútur.

"Svo hefir borið saman fund okkarn," segir Atli, "að þú skalt eigi kunna frá
tíðindum að segja" og þreif upp spjót og skaut á skip Hrúts og hafði sá bana
er fyrir varð.

Síðan tókst orusta með þeim og sóttist þeim seint skip þeirra Hrúts. Úlfur
gekk vel fram og gerði ýmist að hann skaut eða lagði. Ásólfur hét stafnbúi
Atla. Hann hljóp upp á skip Hrúts og varð fjögurra manna bani áður Hrútur
varð var við. Snýr hann þá í mót honum. En er þeir finnast þá leggur Ásólfur
í skjöld Hrúts og í gegnum en Hrútur hjó til Ásólfs og varð það banahögg.

Þetta sá Úlfur óþveginn og mælti: "Bæði er nú Hrútur að þú höggur stórt enda
átt þú mikið að launa Gunnhildi."

"Þess varir mig," segir Hrútur, "að þú mælir feigum munni."

Nú sér Atli beran vopnastað á Úlfi og skaut spjóti í gegnum hann. Síðan varð
hin strangasta orusta. Atli hleypur upp á skip að Hrúti og ryðst um fast og
nú snýr í mót honum Össur og lagði til hans og féll sjálfur á bak aftur því
að annar maður lagði til hans. Hrútur sneri nú í mót Atla. Atli hjó þegar í
skjöld Hrúts og klauf allan niður. Þá fékk Atli steinshögg á höndina og féll
niður sverðið. Hrútur tók sverðið og hjó undan Atla fótinn. Síðan veitti
hann honum banasár. Þar tóku þeir fé mikið og höfðu með sér tvö skip, þau er
best voru, og dvöldust þar litla hríð síðan.