4. kafli

Um vorið spurði hann til Sóta að hann var farinn suður til Danmerkur með
erfðina. Þá

gekk Hrútur á fund Gunnhildar og segir henni frá ferðum Sóta.

Gunnhildur mælti: "Eg mun fá þér tvö langskip skipuð mönnum og þar með hinn

hraustasta mann, Úlf óþveginn, gestahöfðingja vorn. En þó gakk þú að finna
konung áður þú farir."

Hrútur gerði svo. Og er hann kom fyrir konung þá segir hann konungi um ferð
Sóta og

það með að hann ætlar eftir honum að halda.

Konungur mælti: "Hvern styrk hefir móðir mín til lagið með þér?"

Hrútur svarar: "Langskip tvö og fyrir liðinu Úlf óþveginn."

Konungur mælti: "Vel er þar til fengið. Nú vil eg fá þér önnur tvö langskip
og munt þú þó þurfa þessa liðs alls."

Síðan fylgdi hann Hrúti til skips og mælti: "Farist þér nú vel."

Síðan sigldi Hrútur liði sínu suður.


5. kafli

Atli hét maður. Hann var sonur Arnviðar jarls úr Gautlandi hinu eystra. Hann
var

hermaður mikill og lá úti austur í Leginum. Hann hafði átta skip. Faðir hans
hafði haldið

sköttum fyrir Hákoni Aðalsteinsfóstra og stukku þeir feðgar til Gautlands úr
Jamtalandi.

Atli hélt liðinu úr Leginum út um Stokkssund og svo suður til Danmerkur og
liggur úti í

Eyrasundi. Hann var og útlagi bæði Danakonungs og Svíakonungs af ránum og

manndrápum er hann hafði gert í hvorutveggja ríkinu.

Hrútur hélt suður til Eyrasunds. Og er hann kom í sundið sér hann fjölda
skipa í sundinu.

Þá mælti Úlfur: "Hvað skal nú til ráða taka Íslendingur?"

"Halda fram ferðinni," Segir Hrútur, "því að ekki dugir ófreistað. Skal skip
okkar Össurar

fara fyrst en þú skalt leggja fram sem þér líkar."

"Sjaldan hefi eg haft aðra að skildi fyrir mér," segir Úlfur.

Leggur hann fram skeiðina jafnfram skipi Hrúts og halda svo fram í sundið.

Nú sjá þeir er í sundinu eru að skip fara að þeim og segja Atla til.