"Svo þykir mér sem móðir mín vilji að þú fáir nafnbót slíka sem þú mælir
til. En fyrir tignar sakir vorrar og landssiðar þá kom þú til vor á hálfs
mánaðar fresti. Skalt þú þá gerast hirðmaður minn en móðir mín haldi þér
kost þar til og kom síðan á minn fund."

Gunnhildur mælti við Ögmund: "Fylg þeim til húsa minna og ger þeim þar góða
veislu."

Ögmundur gekk út og þeir með honum og fylgdi hann þeim í eina steinhöll. Þar
var tjaldað hinum fegursta borða. Þar var og hásæti Gunnhildar.

Þá mælti Ögmundur: "Nú mun það sannast er eg sagði þér frá Gunnhildi. Hér er
hásæti hennar og skalt þú í setjast og halda mátt þú þessu sæti þó að hún
komi sjálf til."

Síðan veitti hann þeim veislu. Þeir höfðu skamma hríð setið áður þar kom
Gunnhildur. Hrútur vildi upp spretta og fagna henni.

"Sit þú," segir hún, "og skalt þú jafnan þessu sæti halda þá er þú ert í
boði mínu."

Síðan settist hún hjá Hrúti og drukku þau. Og um kveldið mælti hún: "Þú
skalt sofa í lofti hjá mér í nótt og við tvö saman."

"Þér skuluð ráða," sagði hann.

Síðan gengu þau til svefns og læsti hún þegar loftinu innan og sváfu þau þar
um nóttina. Um morguninn eftir fóru þau til drykkju. Og allan þann hálfan
mánuð lágu þau í loftinu tvö ein.

Þá mælti Gunnhildur við þá menn er þar voru: "Þér skuluð engu fyrir týna
nema lífinu ef þér segið nokkurum frá um hagi vora."

Hrútur gaf henni hundrað álna hafnarvoðar og tólf vararfeldi. Gunnhildur
þakkaði honum gjöfina. Hrútur gekk í braut og minntist við hana áður og
þakkaði henni. Hún bað hann vel fara.

Um daginn eftir gekk Hrútur fyrir konung við þrjá tigu manna og kvaddi
konung.

Konungur mælti: "Nú munt þú vilja að eg efni við þig Hrútur það sem eg hét
þér."

Gerði konungur þá Hrút hirðmann sinn.

Hrútur mælti þá: "Hvar vísið þér mér til sætis?"

"Móðir mín skal því ráða," sagði konungur.

Síðan fékk hún honum hinn sæmilegasta sess og var hann með konungi um
veturinn vel metinn.