Þeir Hrútur fóru austur til Konungahellu. En er þeir komu þar gengu í mót
þeim frændur og vinir og fögnuðu þeim vel. Þeir spurðu hvort konungur var í
bænum. Þeim var sagt að hann var þar. Síðan mættu þeir Ögmundi.

Hann sagði þeim kveðju Gunnhildar og það með að hún mundi eigi bjóða þeim
fyrr en þeir hefðu fundið konung fyrir orðs sakir: "að svo þyki sem eg grípi
gulli á við þá. En eg mun þó til leggja slíkt er mér sýnist og veri Hrútur
djarfmæltur við konung og biðji hann hirðvistar. Eru hér og klæði er
drottningin sendir þér og skalt þú í þeim ganga fyrir konunginn."

Síðan fór Ögmundur aftur.

Annan dag eftir mælti Hrútur við Össur: "Göngum við nú fyrir konung."

"Það má vel," sagði Össur.

Þeir gengu tólf saman og voru þeir allir frændur þeirra og vinir. Þeir komu
í höllina er konungur sat yfir drykkju. Gekk Hrútur fyrstur og kvaddi
konunginn. Konungur hugði vandlega að manninum er vel var búinn og spurði
hann að nafni. Hann nefnir sig.

"Ert þú íslenskur maður?" sagði konungur.

Hann sagði að svo var.

"Hvað hvatti þig hingað á vorn fund?"

"Að sjá tign yðra herra og það annað að eg á erfðamál mikið hér í landi og
mun eg yðvar verða við að njóta að eg fái rétt af."

Konungur mælti: "Hverjum manni hefi eg heitið lögum hér í landi eða hver eru
fleiri erindi þín á vorn fund?"

"Herra," sagði Hrútur, "eg vil biðja yður hirðvistar og gerast yðvar maður."

Konungur þagnar við.

Gunnhildur mælti: "Svo líst mér sem sjá maður bjóði yður hina mestu sæmd því
að mér líst svo ef slíkir væru margir innan hirðar sem þá væri vel skipað."

"Er hann vitur maður?" sagði konungur.

"Bæði er hann vitur og framgjarn," segir hún.