Hvurnin stóð á því að ég skyldi fá þá flugu að í þessari klukku
byggi merkilegt kvikindi, og það væri eilífðin? Það rann sumsé upp
fyrir mér einn dag að orðið sem hún sagði þegar hún tifaði, tveggja
atkvæða orð sem var dregið á seinna atkvæðinu, það væri ei-líbbð, ei-
líbbð. Kannaðist ég þá við þetta orð?
Það var skrýtið að ég skyldi uppgötva eilífina sisona, laungu
áður en ég vissi hvað eilífð var, og jafnvel áður en ég hafði lært
þá setningu að allir menn séu dauðlegir, já meðan ég lifði í
rauninni í eilífðinni sjálfur. Það var einsog fiskur færi altíeinu
að uppgötva vatnið sem hann syndir í. Ég veik að þessu við hann afa
minn einhverntíma þegar svo bar til að við vorum einir í stofunni.
Skilur þú klukkuna afi, segi ég.
Við hér kunnum ekki a þessa klukku nema að litlu leyti, sagði
hann. Við vitum bara að hún sýnir dagatal og klukkustundir altoní
sekúndur. En hann afabróðir hennar ömmu þinnar sem átti þessa klukku
í sextíu og fimm ár, hann sagði mér eftir fyrra eiganda hennar að
hún hefði sýnt túnglkomur áður en úrmakari komst í hana. Gamalt fólk
í ætt ömmu þinnar hélt því fram að þessi klukka gæti sagt fyrir
giftíngar og mannslát. En ég trúi því nú ekki nema mátulega,
dreingur minn.
Þá segi ég: Af hverju segir klukkan altaf ei-líbbð ei-líbbð ei-
líbbð?
Það hlýtur að vera misheyrn barnið gott, sagði afi minn.
Er þá ekki til eilífð? spurði ég.
Ekki öðruvísi en þú hefur heyrt í kvöldbæninni hennar ömmu þinnar
og í sunnudagspostillunni hjá mér, dreingur minn, svaraði hann.
Heyrðu afi minn, sagði ég þá. Er eilífðin kvikindi?
Vendu þig ekki á rugl dreingur minn, sagði afi.
Heyrðu afi minn, er nokkuð að marka aðrar klukkur en klukkuna
okkar?
Nei, sagði afi minn; okkar klukka geingur rétt. Og það er af því
ég er laungu hættur að láta úrmakara líta á hana. Enda hef ég
aungvan þann úrmakara fyrirhitt sem hefur skilið þessa klukku. Ef ég
get ekki gert við hana sjálfur læt ég klastrara líta á hana; mér
reynast klastrarar skást.