Og nú hef ég upp þessa bók þar sem klukkan okkar gamla stendur
heima í stofunni í Brekkukoti og er að tifa. Í þessari klukku var
silfurbjalla. Sláttur hennar var með skæru hljóði, og heyrðist ekki
aðeins um allan bæinn hjá okkur, heldur einnig uppí kirkjugarð. En í
kirkjugarðinum var önnur klukka, hún var úr kopar; og af þeirri
klukku barst djúpur ómur á móti, alla leið til okkar inní bæ. Þannig
mátti í ýmsum veðrum heyra samhljóm af tveim klukkum í þessu
moldarhúsi, annarri úr silfri, hinni úr kopar.
Á klukkunni okkar er útflúruð skífa, og í miðju útflúrinu verða
lesin þau orð að þessa klukku hafi smíðað herra James Cowan sem
lifði í Edínaborg árið 1750. Klukkan var eflaust smíðuð til að
standa í öðru húsi en Brekkukotsbænum, því það hafði orðið að taka
neðanaf henni stöpulinn svo hún kæmist fyrir undir loftinu okkar.
Þessi klukka tifaði hægt og virðulega, og mér bauð snemma í grun að
ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér einsog
ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra
manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar
sig, en sekúnurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru
einsog kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að
standa þó kyr.
Það var segin saga ef eitthvað var um að vera í stofunni, þá
heyrðist aldrei í klukkunni frekar en hún væri ekki til; en þegar
kyrt var orðið og gestirnir farnir og búið að taka af borðinu og
láta aftur hurðina, þá byrjaði hún aftur, og lét sér ekki fipast; og
ef nógu grant var hlustað kom stundum saungtónn í gánghljóðið; eða
einsog slæi fyrir bergmáli.