Halldór Laxness er mikilvirkur höfundur á fleiri sviðum en í
skáldsagnagerð og leikritun. Í ritgerðasafni hans, Gjörníngabók, sem
kom út næst á eftir Brekkukotsannál, er ýmislegt sem varpar ljósi á
sköpunarsögu Brekkukotsannáls, m.a. greinin "Hugblær á
Fjallkirkjunni" sem fjallar um hina kunnu endurminningaskáldsögu
Gunnars Gunnarssonar. Þar er líka kjarni kvikmyndahandrits úr
Brekkukotsannál á þýsku, saminn að beiðni þýskra
kvikmyndaframleiðenda sem sýnir að þeir hafa snemma fengið áhuga á
kvikmyndun sögunnar. Fróðlegust í þessu sambandi er samt
greinin "Þessir hlutir - eða tónlist af streingjum" sem fjallar um
taómunka í Kína og kynni Halldórs sjálfs af þeim. Grein þessari sem
skrifuð er fyrir tvö erlend dagblöð, fylgja einkunnarorð, og það eru
orð ömmu í Brekkukoti:
"Ég held nú að þann saung sem við heyrum ekki hér í Brekkukoti
sækjum við ekki niðrá Austurvöll, skepnan mín."
Í greininni er einnig minnst á Þórð Diðriksson og hið fágæta rit
hans Aðvörunar- og sannleiksraust (Khöfn, 1879) sem túlkar sömu
skoðanir og Þórður skírari heldur fram í Brekkukotsannál.
Við frágang þessarar skólaútgáfu Brekkukotsannáls hef ég stuðst
við reynslu mína af lestri sögunnar með nemendum Menntaskólans við
Tjörnina. Sú reynsla er mjög jákvæð , en orðfæri sögunnar og ýmsir
fróðleiksþættir hennar reyndust þurfa verulegra skýringa við.
Tilgangurinn með útgáfunni er þáttur í þeirri viðleitni að kynna
skólanemendum það besta úr samtímabókmenntum okkar, glæða áhuga ungs
fólks á lestri skáldverka og auðvelda þeim hann. Af þessum ástæðum
eru athugagreinarnar við kapítulana ekki eingöngu spurningar og
verkefni, heldur geyma þær einnig leiðbeingar og skýringar á ýmsum
þáttum verksins. Texta sögunnar er ekki snúið til lögboðinnar
stafsetningar, heldur er rithætti höfundar haldið. Ritháttur
Halldórs Laxness er hluti af stíl sögunnar sem nemendur þurfa að
kynnast óskertum.