Lífssamhljómur manns og náttúru í Brekkukoti er í ætt við
taóisma. Það hefur líka ofsinnis verið fullyrt að Brekkukotsannáll
sé fullur af taóisma, en sjaldnast er það skýrt nánar. Taóismi er
það viðhorf til lífsins og náttúrunnar sem vill að maðurinn lifi
óbrotnu lífi í sátt og samhljómi við umhverfi sitt án tilbúinnar
lífsvélar sem malar allt og alla í kvörn hagvaxtar,
lífsþægindakapphlaups og metorða. Lífslist taóismans er sett fram af
kínverska spekingnum Lao-tse sem lifði á 6. öld f. Kr., í ritinu Tao-
te-king, en það kom út á íslensku árið 1921 undir nafninu Bókin um
veginn. Halldór Laxness fékk strax í æsku miklar mætur á þessu riti
og hefur oft lýst því, t.d. í Alþýðubókinni.
Það er auðvelt að benda á fjölmarga staði í kenningum Lao-tse og
sýna fram á að gamla fólkið í Brekkukoti lifir í samræmi við þær,
t.d.:
"Eg hef þrjá kostgripi, sem eg met mikils og gæti vandlega.
Hinn fyrsti er hógværð, annar er sparsemi, og hinn þriðji er
lítillæti." (Bókin um veginn, 1921, bls. 59).
Og hvar annars staðar en í Brekkukoti eru eindregnari fulltrúar
eftirfarandi álitsgerðar hins forna spekings:
"Að glæða og ala önn fyrir, að framleiða en safna ekki auði, að
starfa en heimta ekki, að mega sín mikils án þess að láta til
sín taka - það er æðsta dygðin." (Bókin um veginn, bls. 11).
Þessi lífslist taóismans á fulltrúa í nokkrum skáldverkum Halldórs
Laxness, einkum þeim sem yngri eru en Brekkukotsannáll. Nefna má
Síng-Síng-Hó í Temúdsjín snýr heim, organistann í Atómstöðinni,
Steinar í Paradísarheimt, pressarann í Dúfnaveislunni og séra Jón
prímus í Kristnihaldi undir Jökli. Andstæður þessa lífsviðhorfs eru
líka áberandi í sögum Halldórs, t.d. sýndarmennskan, gróðafíknin og
lífslygin í fari Gúðmúnsensfólksins og Garðars Hólm.