Brekkukotsannáll kom fyrst út árið 1957 og er fyrsta skáldsagan
frá hendi Halldórs Laxness eftir að hann hlaut bókmenntaverðlaun
Nóbels árið 1955. Sagan virtist koma mörgum á óvart. Það var ekkert
nýmæli að nokkrir úfar risu út af skáldsögu eftir Halldór. Ádeilur í
verkum hans höfðu hnýflað suma menn, og stundum hafði gætt
vanstillingar hjá viðtakendum vegna sífelldra endurnýjana á
efnismeðferð höfundarins og stíl. Allt þetta má sjá í umsögnum og
ritdómum um Brellukotsannál.
Ef litið er á næstu skáldsögur Halldórs á undan Brekkukotsannál,
þ.e. Gerplu, Atómstöðina, Íslandsklukkuna og Heimsljós, verður ljóst
að þar fer höfundur sem hefur óvenju víðtækt vald á máli og stíl og
lætur ekki festast í skorður neinnar ákveðinnar formgerðar. Í
Brekkukotsannál virðist frásögnin mun kyrrstæðari en í fyrri sögum
Halldórs, enda hafa endurminningasögur gjarnan yfir sér hugblæ
rósemdar og tímatafar. En stíll og orðfæri Brekkukotsannáls eiga
líka sinn þátt í þeirri hógværð og látleysi sem hvílir yfir sögunni.
Frásagnarefnið líður áfram þrátt fyrir ýmsa innskotsþætti og
undirtóna sem rjúfa meginstef sögunnar, en í lokin eru rök sögunnar
skýr og dramatísk undir hógværð yfirborðsins.
Íslenskt þjóðlíf um aldamótin síðustu er auðvitað engin nýlunda í
sagnaskáldskap. En hér er það samofið sérkennilegum, mannlegum
örlögum og þjóðfélagslegum átökum undir niðri þannig að allt er í
nýstárlegu samhengi. Margt veldur því að Halldór Laxness nær svo
sérstæðum tökum á gamalkunnu þjóðlífsefni. Sýn sögumanns yfir tvo
heima birtir ferska skýringu á þjóðfélagsandstæðum og
þjóðfélagsþróun. Þessi óvenjulega tímamótaskynjun afhjúpar á einkar
látlausan hátt hvernig nýir atvinnuhættir slíta smám saman upp með
rótum einfalt og hrekklaust lífsform Brekkukotsfólksins sem Álfgrími
finnst í bernsku sinni að sé eilífðin sjálf. Í æsku sinni skynjar
hann ekki örbrigðina en finnst hann vera ríkur, enda býr hann við
auðlegð hamingjusams lífs í Brekkukoti.