16. Nafnorð er heiti einhvers, svo sem veru, hlutar, hugmyndar,
verknaðar, t.d. Jón, hestur, steinn, blíða, akstur.
Nafnorð skiptast í sérnöfn og samnöfn. Sérnöfn eru sérheiti
einstaklings eða hlutar, t.d. Sigurður, Reykjavík. Samnöfn eru
sameiginleg heiti á ýmsu, t.d. maður, borg.
Nafnorð má bæði þekkja af merkingu og því að við þau má bæta greini.
Þau eru fallorð sem bæta við sig greini. Sérnöfn bæta þó sjaldan við
sig greini en þau eru auðþekkt m.a. á því að þau eru ávallt rituð
með stórum upphafsstaf.