11. Orðin skiptast í ákveðna flokka: hina svonefndu orðflokka. Við
flokkunina ber einkum að líta á merkingu, form og stöðu orðsins.

Í þessum kafla verður leitast við að lýsa stuttlega hverjum
orðflokki um sig.

12. Eftir formseinkennum skiptist allur orðaforði málsins í þrjá
aðalflokka:

a) fallorð: orð sem fallbeygjast;
b) sagnorð: orð sem tíðbeygjast;
c) smáorð: orð sem hvorki fallbeygjast né tíðbeygjast.

13. Fallorð í íslensku eru þessi: greinir, nafnorð, lýsingarorð,
töluorð (að frádregnum töluatviksorðum), fornöfn og fallhættir sagna.

Sagnorð eða sögn nefnist hvert það orð sem hefur tíðbeygingu: ganga,
geng, gekk; vera, er, var.

Smáorð nefnist hvert það orð sem hvorki fallbeygist né tíðbeygist.
Smáorð í íslensku eru þessi: forsetningar, atviksorð, samtengingar,
upphrópanir og nafnháttarmerki.