10. Stigbreyting. Hugsum okkur þrjá hesta. Þeir eru allir stórir en
þó misstórir. Ef við berum þá saman getum við sagt:

Gráni er stór.
Brúnn er stærri.
Jarpur er stærstur.

Þessi breyting á orðinu stór nefnist stigbreyting. Stigin eru þrjú,
frumstig, miðstig og efsta stig.

Lýsingarorð er í frumstigi þegar það felur ekki í sér samanburð,
miðstig felur í sér samanburð á tvennu, efsta stig samanburð á
fleira en tvennu. Flest lýsingarorð og sum atviksorð stigbreytast.

6. æf. Finnið stig sérhvers lýsingarorðs í eftirfarandi verkefnum.
Stigbreytið lýsingarorðin:
a) Jón er duglegri en Siggi. Fjörðurinn er langur. Fjallið er
hátt. Hver er stærstur? Hér er vatnið grynnst. Nú er dagurinn
stuttur en nóttin löng. Hún er minni en hann. Dalurinn er fallegur.
Húsið er rautt. Hér er garðurinn lægstur. Vegurinn er mjór. Páll er
iðjusamari en Sigga. Kjöt er dýrara en fiskur. Nú er dagur
skemmstur. Hún er kátari í dag en í gær. Hann er þýður í viðmóti.
b) Hann er sterkari en ég bjóst við. Hún er dökk yfirlitum. Þessi
kjóll er ljósari en hinn. Þetta er breiðasta gatan í bænum. Þú ert
brosleitur í dag. Þessi maður er brögðóttur og slægur. Það er
bjartara í dag en í gær. Hver er yngstur? Drengurinn er einþykkur.
Ég er elstur ykkar. Hún er fegurst allra kvenna.
c) Ísinn er hálli en glerið. Jón er ekki svo grænn. Hún er sælust
allra. Margur er knár þótt hann sé smár. Hylurinn er djúpur og lygn.
Hann er mikill maður og auðugur. Klárgengir hestar finnast mér
sístir, vekringar bestir. Þeir eru flestum óþjálli í viðskiptum. Við
vorum þögulir og í vondu skapi.