1. Talað mál nefnist talmál en ritað mál ritmál. Talmál er safn orða
sem búin eru til úr hljóðum. Ritmál er og safn orða en bókstafir
koma þar í stað hljóða. Bókstafirnir eru því hljóðtákn.
Í íslensku eru nú notaðir þessir 33 bókstafir: a, á, b, d, ð, e,
é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, r, s, t, u, ú, v, x, y, ý,
z, þ, æ, ö. Auk þess eru stafirnir c, q, w notaðir í íslensku í
erlendum orðum.
2. Hljóðin greinast í sérhljóð og samhljóð eftir því hvort
loftstraumurinn í munninum mætir lítilli eða mikilli mótspyrnu þegar
hljóðið er myndað. Sérhljóð nefnast þau sem mæta lítilli mótspyrnu:
a, i, ö. Hin nefnast samhljóð: b, k, t.
Bókstafirnir, sem tákna þessi hljóð, heita sérhljóðar og
samhljóðar(í eintölu sérhljóði og samhljóði). Sérhljóðar eru þessir:
a, á, e,(é), i, í, o, ó, u, ú, y, ý, æ, ö. Samhljóðar eru þessir: b,
d, ð, f, g, h, j, k, l, m, n, p, r, s, t, v, x, z, þ; c, q, w. Kveða
má að heiti samhljóðanna, t.d. f : eff, k : ká, r : err o.s.frv.
Ekki verður kveðið að bókstafsheitum sérhljóðanna(nema é, en það er
samhljóð plús sérhljóð: je).