Nú kemur Þóroddur að bænum, gengur að durum við fá menn og spyr ef Gunnar vill nokkura sætt bjóða.


Hann svarar: "Eg veit eigi að eg eigi nokkuð að bæta. En hitt væntir mig, áður þér fáið mitt vald, að griðkonur mínar muni stungið hafa nokkura þína félaga svefnþorni áður eg hnígi í gras."


Þóroddur svarar: "Satt er það að þú ert afbragð flestra manna nú þeirra sem uppi eru. En þó má koma svo mart lið í móti þér að þú getir eigi við staðið því að faðir minn ríður að garði með mikið lið og ætlar að drepa þig."


Gunnar svarar: "Vel er það. En það mundi eg vilja að eg hefði mann fyrir mig áður eg hnígi að velli. En eigi gruna eg það þótt faðir þinn haldi lítt sættirnar."


"Hina leið er," sagði Þóroddur, "að vér viljum gjarna sættast og rétt nú fram höndina með góðum vilja þínum og gift mér Jófríði dóttur þína."


Gunnar svarar: "Eigi kúgar þú dóttur mína af mér. En eigi væri það fjarri jafnaði boðið sakir þín því að þú ert góður drengur."


Þóroddur svarar: "Eigi mun það svo virt af góðgjörnum mönnum og kann eg mikla þökk fyrir að þú takir þenna kost með þeim máldögum sem því hæfir."


Og nú við umtölur vina sinna og það annars að honum þótti Þóroddur jafnan vel farið hafa með sínu máli þá verður það af að Gunnar réttir fram höndina og lúka svo þessu máli.


Nú í þessu kemur Oddur í tún og snýr Þóroddur þegar í mót föður sínum og spyr hvað hann ætlar. Hann kveðst ætla að brenna bæinn og svo mennina.


Þóroddur svarar: "Á aðra leið er nú komið málinu og erum við Gunnar nú sáttir" og segir allt hve komið er.


"Heyr hér á endemi," segir Oddur, "væri þér þá verra að eiga konuna þótt Gunnar væri drepinn áður er mestur var vor mótstöðumaður? Og höfum vér illt að verki að hefja þig."