Þorkell mælti þá: "Svo er háttað Gunnar bóndi að hér er sá maður í ferð með mér er Hersteinn heitir, son Blund-Ketils. Er eigi því erindi að leyna að hann vill biðja dóttur þinnar Þuríðar. Hefi eg og fyrir þessa sök með honum farið að eg vildi eigi að þú vísaðir manninum frá því að mér sýnist happaráð hið mesta. Þykir mér og miklu varða að eigi sé óvirt þetta mál og mín tillög eða seint svarað."


Gunnar mælti: "Eigi er eg einhlítur um svör þessa máls og vil eg ráðast um við móður hennar og svo við dóttur mína og einkum við Þórð gelli frænda hennar. En góðar einar fréttir höfum vér til þessa manns og svo til föður hans og er þetta ásjámál."


Þá svarar Trefill: "Svo skaltu til ætla að vér munum eigi lengi vonbiðlar vera konunnar og þykjumst vér eigi minnur sjá fyrir þinni sæmd en vorri. Þykir mér og kynlegt um svo vitran mann sem þú ert að þú virðir slíka hluti fyrir þér svo vel sem boðið er. Höfum vér og svo að eins heiman gert ferð vora að eigi mun til einskis ætluð. Og mun eg Hersteinn veita þér slíkt lið sem þú vilt að þetta fari fram ef hann kann eigi að sjá hvað honum sómir."


Gunnar svarar: "Það fæ eg eigi skilið hví þér látið svo brátt að þessu eða haldið við heitan sjálfa því að mér líst þetta mjög jafnræði en einskis ills örvænti eg fyrir yður og mun eg það ráð upp taka að rétta fram höndina."


Og svo gerir hann en Hersteinn nefnir sér votta og fastnar sér konu. Eftir þetta standa þeir upp og ganga inn. Er þeim veittur beini góður.


Nú spyr Gunnar tíðinda. Þorkell segir að þeir hafi nú eigi annað nýlegar frétt en brennu Blund-Ketils. Gunnar spurði hver því olli. Þorkell segir að Þorvaldur Oddsson var upphafsmaður að og Arngrímur goði. Gunnar svaraði fá, lastaði lítt enda lofaði eigi.