Snorri svarar: "Svo hefir þú fangsæll orðið á fundi vorum að þú munt grið hafa að sinni hversu sem áður var ætlað. En þess vil eg biðja þig að þú heft þig að héðan af að glepja Þuríði systur mína því að eigi mun um heilt gróa með okkur ef þú heldur þar um teknum hætti."

Björn svarar: "Því einu vil eg heita þér er eg efni en eg veit eigi hversu eg fæ það efnt," segir hann, "ef við Þuríður erum sams héraðs."

Snorri svarar: "Þig heldur hér eigi svo mart að þú megir eigi vel bægja hér héraðsvist."

Björn svarar: "Satt er það er nú segir þú. Skal og svo vera, er þú ert sjálfur kominn á minn fund og þann veg sem fundur vor er orðinn, að eg mun því heita þér að þið Þóroddur skuluð eigi hafa skapraun af fundum okkrum Þuríðar hina næstu vetur."

"Þá gerir þú vel," segir Snorri.

Eftir þetta skildu þeir. Reið Snorri goði til skips og síðan heim til Helgafells.

Annan dag eftir reið Björn suður í Hraunhöfn til skips og tók sér þar þegar far um sumarið og urðu heldur síðbúnir. Þeir tóku út landnyrðing og viðraði það löngum um sumarið en til skips þess spurðist eigi síðan langan tíma.


48. kafli

Eftir sætt Eyrbyggja og Álftfirðinga fóru Þorbrandssynir til Grænlands, Snorri og Þorleifur kimbi, við hann er kenndur Kimbavogur á Grænlandi í millum jökla, og bjó Þorleifur á Grænlandi til elli. En Snorri fór til Vínlands hins góða með Karlsefni. Er þeir börðust við Skrælingja þar á Vínlandi þá féll þar Snorri Þorbrandsson, hinn röskvasti maður.

Þóroddur Þorbrandsson bjó eftir í Álftafirði. Hann átti Ragnhildi Þórðardóttur Þorgilssonar arnar en Þorgils örn var sonur Hallsteins goða af Hallsteinsnesi er þrælana átti.


49. kafli

Það er nú næst sagt að Gissur hvíti og Hjalti mágur hans komu út með kristniboð og allir menn voru skírðir á Íslandi og kristni var í lög tekin á alþingi og flutti Snorri goði mest við Vestfirðinga að við kristni væri tekið.