1. kafli


Oddur hét maður Önundarson breiðskeggs, Úlfarssonar, Úlfssonar á Fitjum, Skeggjasonar, Þórissonar hlammanda. Hann bjó á Breiðabólstað í Reykjardal í Borgarfirði. Hann átti þá konu er Jórunn hét. Hún var vitur kona og vel látin. Þau áttu fjögur börn, sonu tvo vel mannaða og dætur tvær. Annar son þeirra hét Þóroddur en annar Þorvaldur. Þuríður hét dóttir Odds en önnur Jófríður. Hann var kallaður Tungu-Oddur. Engi var hann kallaður jafnaðarmaður.


Torfi hét maður og var Valbrandsson, Valþjófssonar, Örlygssonar frá Esjubergi. Hann átti Þuríði Tungu-Oddsdóttur. Þau bjuggu á öðrum Breiðabólstað.


Arngrímur hét maður Helgason, Högnasonar er út kom með Hrómundi. Hann bjó í Norðurtungu. Hann var kallaður Arngrímur goði. Helgi hét son hans.


Blund-Ketill hét maður, son Geirs hins auðga úr Geirshlíð, Ketilssonar blunds er Blundsvatn er við kennt. Hann bjó í Örnólfsdal. Það var nokkuru ofar en nú stendur bærinn. Var þar mart bæja upp í frá. Hersteinn hét son hans. Blund-Ketill var manna auðgastur og best að sér í fornum sið. Hann átti þrjá tigu leigulanda. Hann var hinn vinsælasti maður í héraðinu.


Þorkell trefill hét maður. Hann var Rauða-Bjarnarson. Hann bjó í Svignaskarði fyrir utan Norðurá. Helgi var bróðir Þorkels er bjó í Hvammi í Norðurárdal. Annar var Gunnvaldur, faðir Þorkels er átti Helgu dóttur Þorgeirs á Víðimýri. Þorkell trefill var vitur maður og vel vinsæll, stórauðigur að fé.


Þórir hét maður. Hann var snauður að fé og eigi mjög vinsæll af alþýðu manna. Hann lagði það í vanda sinn að hann fór með sumarkaup sitt héraða í milli og seldi það í öðru er hann keypti í öðru og græddist honum brátt fé af kaupum sínum. Og eitt sinn er Þórir fór sunnan um heiði hafði hann með sér hænsn í för norður um land og seldi þau með öðrum kaupskap og því var hann kallaður Hænsna-Þórir