Síðan var saman jafnað annarra manna sárum og bættur skakki sá er á þótti vera og skildust menn sáttir á þinginu og hélst sú sætt vel meðan þeir lifðu báðir, Steinþór og Snorri goði.


47. kafli

Sumar þetta hið sama eftir sættina bauð Þóroddur skattkaupandi Snorra goða mági sínum til heimboðs þangað til Fróðár og fór Snorri þangað við hinn níunda mann.

En er Snorri var að heimboðinu þá kærði Þóroddur fyrir honum að hann þóttist hafa bæði skömm og skapraun af ferðum Bjarnar Ásbrandssonar er hann fór að finna Þuríði, konu hans en systur Snorra goða. Sagði Þóroddur að honum þótti Snorri eiga að ráða bætur á þeim vandræðum.

Snorri var að heimboðinu nokkurar nætur. Leiddi Þóroddur hann á brott með sæmilegum gjöfum. Reið Snorri goði þaðan suður yfir heiði og gerði það orð á að hann mundi ríða til skips í Hraunhafnarós. Þetta var um sumarið um túnannir.

En er þeir komu suður á Kambsheiði þá mælti Snorri: "Hér munum vér ríða af heiðinni ofan að Kambi. Vil eg yður það kunnigt gera," segir hann, "að eg vil hafa tilfarar við Björn og taka hann af lífi ef færi gefur en eigi sækja hann í hús inn því að hús eru hér sterk en Björn er hraustur og harðfengur en vér höfum afla lítinn. En þeim mönnum hefir lítt sóst að sækja afarmenni slíkt í hús inn er með meira afla hafa til farið sem dæmi finnast að þeim Geir goða og Gissuri hvíta þá er þeir sóttu Gunnar að Hlíðarenda inn í hús með átta tigu manna en hann var einn fyrir og urðu sumir sárir en sumir drepnir og léttu frá atsókninni áður Geir goði fann það af skyni sjálfs síns að honum fækkuðust skotvopnin. Nú með því," sagði hann, "að Björn sé úti, sem nú er von með því að þerridagur er góður, þá ætla eg þér Már frændi að sæta áverkum við Björn.