Þenna dag hlutu þeir búðarvörð Björn Breiðvíkingakappi og Þórður blígur og skyldi Björn gera eld en Þórður taka vatn. Og er eldurinn var ger lagði reykinn upp í skarðið sem Snorri hafði getið til. Gekk Egill þá ofan eftir reykinum og stefndi til skálans.
Þá var enn eigi lokið leikinum. En dagurinn var mjög á liðinn og tóku eldarnir mjög að brenna en skálinn var fullur af reyk. Og stefnir Egill þangað. Hann hafði stirðnað mjög á fjallinu.
Egill hafði skúfaða skóþvengi, sem þá var siður til, og hafði losnað annar þvengurinn og dragnaði skúfurinn. Gekk þrællinn þá inn í forhúsið. En er hann gekk í aðalskálann vildi hann fara hljóðlega því að hann sá að þeir Björn og Þórður sátu við eld og ætlaði Egill nú á lítilli stundu að vinna sér til ævinlegs frelsis. Og er hann vildi stíga yfir þröskuldinn þá sté hann á þvengjarskúfinn þann er dragnaði. Og er hann vildi hinum fætinum fram stíga þá var skúfurinn fastur og af því reiddi hann til falls og féll hann innar á gólfið. Varð það svo mikill dynkur sem nautsbúk flegnum væri kastað niður á gólfið.
Þórður hljóp upp og spurði hvað fjanda þar færi. Björn hljóp og upp og að honum og fékk tekið hann áður hann komst á fætur og spyr hver hann væri.
Hann svarar: "Egill er hér, Björn félagi," sagði hann.
Björn spurði: "Hver er Egill þessi?"
"Þetta er Egill úr Álftafirði," segir hann.
Þórður tók sverð og vildi höggva hann. Björn tók þá Þórð og bað hann eigi svo skjótt höggva manninn "viljum vér áður hafa af honum sannar sögur." Settu þeir þá fjötur á fætur Agli.
En um kveldið er menn komu heim til skála segir Egill svo að allir menn heyrðu hversu ferð hans hafði ætluð verið. Sat hann þar um nóttin en um morguninn leiddu þeir hann upp í skarðið, það heitir nú Egilsskarð, og drápu hann þar.