Þessi svarar er fyrir skyldi vera: "Gengið er nú þaðan er þeir gerðu erfið það hið fjölmenna er tólf hundruð manna sátu að og ganga slíkir höfðingjar mjög saman er nú vilja eigi veita einum manni nokkura ásjá."

Þorvaldur var úti staddur og heyrði talið. Hann gengur þangað til og tók í tauma hestsins og bað hann af baki stíga "en þó er eigi virðingarvænlegt við þig að eiga fyrir sakir fólsku þinnar."

80. kafli

Af Þórólfi sterti

Nú er að segja frá Þórði er hann kom heim og frá víg sonar síns og harmaði það mjög.

Guðrún kona hans mælti: "Það er þér ráð að lýsa vígi sveinsins á hönd Þórólfi en eg mun ríða suður til Tungu og finna Bolla frænda minn og vita hvern styrk hann vill veita okkur til eftirmáls."

Þau gerðu svo. Og er Guðrún kom í Tungu fær hún þar viðtökur góðar. Hún segir Bolla víg Ólafs sonar síns og beiddi að hann tæki við eftirmálinu.

Hann svarar: "Eigi þykir mér þetta svo hæglegt að seilast til sæmdar í hendur þeim Norðlendingum. Fréttist mér og svo til sem maðurinn muni þar niður kominn að ekki muni hægt eftir að leita."

Bolli tók þó við málinu um síðir og fór Guðrún norður og kom heim. Hún sagði Þórði bónda sínum svo sem nú var komið og líður nú svo fram um hríð.

Eftir jól um veturinn var lagður fundur í Skagafirði að Þverá og stefndi Þorvaldur þangað Guðdala-Starra. Hann var vinur þeirra bræðra. Þorvaldur fór til þingsins við sína menn og er þeir komu fyrir Urðskriðuhóla þá hljóp úr hlíðinni ofan að þeim maður. Var þar Þórólfur. Réðst hann í ferð með þeim Þorvaldi.

Og er þeir áttu skammt til Þverár þá mælti Þorvaldur við Þórólf: "Nú skaltu hafa með þér þrjár merkur silfurs og sitja hér upp frá bænum að Þverá. Haf það að marki að eg mun snúa skildi mínum og að þér holinu ef þér er fritt og máttu þá fram ganga. Skjöldurinn er hvítur innan."