Þá segir Þorsteinn: "Eg ætla og ekki þurfa að fresta því að kveða það upp er
fyrir er hugað að þér eru tveir kostir hugðir því að vér þykjumst eiga undir
oss hærra hlut fyrir liðsmunar sakir. Er sá kostur annar að þú ger þetta mál
með vild og haf þar í mót vinfengi vort en sá er annar að sýnu er verri að
þú rétt nauðigur fram höndina og handsala mér Hjarðarholtsland."
En þá er Þorsteinn mælti svo framt þá sprettur Halldór upp svo hart að
nistin rifnaði af skikkjunni og mælti: "Verða mun annað fyrr en eg mæli það
er eg vil eigi."
"Hvað mun það?" spyr Þorsteinn.
"Bolöx mun standa í höfði þér af hinum versta manni og steypa svo ofsa þínum
og ójafnaði."
Þorkell svarar: "Þetta er illa spáð og væntum vér að eigi gangi eftir og
ærnar kalla eg nú sakar til þótt þú Halldór látir land þitt og hafir eigi fé
fyrir."
Þá svarar Halldór: "Fyrr muntu spenna um þöngulshöfuð á Breiðafirði en eg
handsali nauðigur land mitt."
Halldór gengur nú heim eftir þetta. Þá drífa menn að bænum, þeir er hann
hafði eftir sent. Þorsteinn var hinn reiðasti og vildi þegar veita Halldóri
atgöngu.
Þorkell bað hann eigi það gera "og er það hin mesta óhæfa á slíkum tíðum en
þegar þessi stund líður af þá mun eg ekki letja að oss lendi saman."
Halldór kvaðst það ætla að hann mundi aldrei vanbúinn við þeim.
Eftir þetta riðu þeir í brott og ræddu margt um ferð þessa með sér.
Þorsteinn mælti, kvað það satt vera að þeirra ferð var hin dálegsta "eða hví
varð þér svo bilt Þorkell frændi að ráða til Halldórs og gera honum nokkura
skömm?"

Grace Hatton
Hawley, PA