75. kafli - Viðurtal Halldórs og Þorkels
Þenna vetur eftir jól bjóst Þorkell heiman norður til Hrútafjarðar að flytja
norðan viðu sína. Ríður hann fyrst inn í Dali og þaðan í Ljárskóga til
Þorsteins frænda síns og aflar sér manna og hrossa. Hann fer síðan norður
til Hrútafjarðar og dvelst þar um hríð og hefir ætlan á um ferðina, safnar
að sér hestum þar um fjörð því að hann vildi eigi fleiri farar að gera ef
svo mætti takast. Varð þetta ekki skjótt. Þorkell var í starfi þessu fram á
langaföstu. Hann kemur þessu starfi til vegar. Hann dró viðinn norðan meir
en á tuttugu hestum og lætur liggja viðinn á Ljáeyri. Síðan ætlaði hann að
flytja á skipi út til Helgafells. Þorsteinn átti ferju mikla og ætlaði
Þorkell það skip að hafa þá er hann færi heimleiðis. Þorkell var í
Ljárskógum um föstuna því að ástúðigt var með þeim frændum. Þorsteinn ræddi
við Þorkel að það mundi vel hent að þeir færu í Hjarðarholt: "Vil eg fala
land að Halldóri því að hann hefir lítið lausafé síðan hann galt þeim
Bollasonum í föðurbætur. En það land er svo að eg vildi helst eiga."
Þorkell bað hann ráða. Fara þeir heiman og voru saman vel tuttugu menn. Þeir
koma í Hjarðarholt. Tók Halldór vel við þeim og var hinn málreifasti. Fátt
var manna heima því að Halldór hafði sent menn norður í Steingrímsfjörð. Þar
hafði komið hvalur er hann átti í. Beinir hinn sterki var heima. Hann einn
lifði þá þeirra manna er verið höfðu með Ólafi föður hans.
Halldór hafði mælt til Beinis þegar er hann sá reið þeirra Þorsteins: "Gerla
sé eg erindi þeirra frænda. Þeir munu fala land mitt að mér og ef svo er þá
munu þeir heimta mig á tal. Þess get eg að á sína hönd mér setjist hvor
þeirra. Og ef þeir bjóða mér nokkurn ómaka þá vertu eigi seinni að ráða til
Þorsteins en eg til Þorkels. Hefir þú lengi verið trúr oss frændum. Eg hefi
og sent á hina næstu bæi eftir mönnum. Vildi eg að það hæfðist mjög á að lið
það kæmi og vér slitum talinu."

Grace Hatton
Hawley, PA