"Vera má að svo sé," segir Guðrún, "en heldur mundi eg ætla að þar mundir þú
drepa skeggi í Breiðafjörð niður."
Það sama sumar setur Þorkell fram skip sitt og býr til Noregs. Gellir son
hans var þá tólf vetra gamall. Hann fór utan með föður sínum. Þorkell lýsir
því að hann ætlar að sækja sér kirkjuvið og siglir þegar á haf er hann var
búinn. Hann hafði hægja útivist og eigi allskamma. Taka þeir Noreg norðarla.
Þá sat Ólafur konungur í Þrándheimi. Þorkell sótti þegar á fund Ólafs
konungs og með honum Gellir son hans. Þeir fengu þar góðar viðtökur. Svo var
Þorkell mikils metinn af konungi þann vetur að það er alsagt að konungur gaf
honum eigi minna fé en tíu tigi marka brennds silfurs. Konungur gaf Gelli að
jólum skikkju og var það hin mesta gersemi og ágætur gripur. Þann vetur lét
Ólafur konungur gera kirkju í bænum af viði. Var það stofnað allmikið
musteri og vandað allt til. Um vorið var viður sá til skips fluttur er
konungur gaf Þorkatli. Var sá viður bæði mikill og góður því að Þorkell gekk
nær.
Það var einn morgun snemma að konungur gekk út við fá menn. Hann sá mann
uppi á kirkju þeirri er í smíð var þar í bænum. Hann undraðist þetta mjög
því að morgni var minnur fram komið en smiðar voru vanir upp að standa.
Konungur kenndi manninn. Var þar Þorkell Eyjólfsson og lagði mál við öll hin
stærstu tré, bæði bita og staflægjur og uppstöðutré.
Konungur sneri þegar þangað til og mælti: "Hvað er nú Þorkell, ætlar þú hér
eftir að semja kirkjuvið þann er þú flytur til Íslands?"
Þorkell svarar: "Satt er það herra."
Þá mælti Ólafur konungur: "Högg þú af tvær alnar hverju stórtré og mun sú
kirkja þó ger mest á Íslandi."

Grace Hatton
Hawley, PA