Þenna vetur sat Ólafur konungur austur í Sarpsborg og það spurðist austan að
konungs var ekki norður von. Snemma um vorið bjuggu þeir bræður skip sitt og
fóru austur með landi. Tókst þeim greitt ferðin og komu austur til
Sarpsborgar og fóru þegar á fund Ólafs konungs. Fagnar konungur vel Þorleiki
hirðmanni sínum og hans förunautum. Síðan spurði konungur hver sá væri hinn
vörpulegi maður er í göngu var með Þorleiki.
En hann svarar: "Sá er bróðir minn og heitir Bolli."
"Að vísu er hann skörulegur maður," segir konungur.
Eftir það bauð konungur þeim bræðrum að vera með sér. Taka þeir það með
þökkum og eru þeir með konungi um vorið. Er konungur vel til Þorleiks sem
fyrr en þó mat hann Bolla miklu meira því að konungi þótti hann mikið
afbragð annarra manna.
Og er á leið vorið þá ræða þeir bræður um ferðir sínar. Spurði Þorleikur
hvort Bolli vilji fara út til Íslands um sumarið "eða viltu vera í Noregi
lengur?"
Bolli svarar: "Eg ætla mér hvorki og er það satt að segja að eg hafði það
ætlað þá er eg fór af Íslandi að eigi skyldi að spyrja til mín í öðru húsi.
Vil eg nú frændi að þú takir við skipi okkru."
Þorleiki þótti mikið ef þeir skulu skilja "en þú Bolli munt þessu ráða sem
öðru."
Þessa sömu ræðu báru þeir fyrir konung en hann svarar á þá leið: "Viltu ekki
Bolli dveljast með oss lengur?" segir konungur. "Þætti mér hinn veg best er
þú dveldist með mér um hríð. Mun eg veita þér þvílíka nafnbót sem eg veitti
Þorleiki bróður þínum."
Þá svarar Bolli: "Allfús væri eg herra að bindast yður á hendur en fara vil
eg fyrst þangað sem eg hefi áður ætlað og mig hefir lengi til fýst en þenna
kost vil eg gjarna taka ef mér verður afturkomu auðið."

Grace Hatton
Hawley, PA