Þórólfi bægifót líkaði stórilla við Arnkel er þrælarnir voru drepnir og
beiddi bóta fyrir en Arnkell synjaði þverlega að gjalda fyrir þá nokkurn
pening. Líkaði Þórólfi nú verr en áður.
Það var einn dag að Þórólfur reið út til Helgafells að finna Snorra goða og
bauð Snorri honum þar að vera en Þórólfur kvaðst eigi þurfa að eta mat hans
"er eg því hér kominn að eg vil að þú réttir hlut minn því að eg kalla þig
héraðshöfðinja og skyldan að rétta þeirra manna hlut er áður eru vanhluta."
"Fyrir hverjum liggur hlutur þinn undir, bóndi?" sagði Snorri.
"Fyrir Arnkatli syni mínum," segir Þórólfur.
Snorri mælti: "Það skaltu eigi kæra því að þér á svo hver hlutur að þykja
sem honum því að hann er betri maður en þú."
"Þann veg er eigi," segir hann, "því að hann veitir mér nú mestan ágang. Vil
eg nú gerast vinur þinn fullkominn, Snorri, en þú tak við eftirmálum um
þræla mína er Arnkell hefir drepa látið og mun eg eigi mæla mér allar
bæturnar."
Snorri svarar: "Eigi vil eg ganga í deilu með ykkur feðgum."
Þórólfur svarar: "Engi ertu vinur Arnkels. En það kann vera að þér þyki eg
féglöggur en nú skal eigi það. Eg veit," sagði hann, "að þú vilt eiga
Krákunes og skóginn með er mest gersemi er hér í sveit. Nú mun eg þetta allt
handsala þér en þú mæl eftir þræla mína og fylg því svo skörulega að þú
vaxir af en þeir þykist ofgert hafa er mig svívirtu. Vil eg og engum manni
hlífa láta þeim er hér hafa hlut í átt hvort sem hann er meiri eða minni
minn vandamaður."
Snorri þóttist mjög þurfa skóginn. Og er svo sagt að hann tók handsölum á
landinu og tók við eftirmáli þrælanna. Reið Þórólfur síðan heim og undi vel
við en þetta mæltist lítt fyrir af öðrum mönnum.
Um vorið lét Snorri búa mál til Þórsnessþings á hendur Arnkatli um
þræladrápið. Fjölmenntu þeir báðir til þingsins og hélt Snorri fram málum

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.