Sá atburður varð einnhvern dag um þingið að fest voru út klæði manna til
þerris. Þorgils átti blá heklu. Hún var breidd á búðarvegginn.
Menn heyrðu að heklan kvað þetta:
Hangir vot á vegg
veit hattkilan bragð,
þvígit oftar þurr,
þeygi dyl eg að hún viti tvö.
Þetta þótti hið mesta undur.
Hinn næsta dag eftir gekk Þorgils vestur yfir ána og skyldi gjalda fé sonum
Helga. Hann sest niður á hölknið fyrir ofan búðirnar. Með honum var Halldór
fóstbróðir hans og fleiri voru þeir saman. Þeir synir Helga komu til
mótsins. Þorgils tekur nú að telja silfrið. Auðgísl Þórarinsson gekk þar hjá
og í því er Þorgils nefndi tíu þá hjó Auðgísl til hans og allir þóttust
heyra að höfuðið nefndi ellefu er af fauk hálsinum. Auðgísl hljóp til
Vatnsfirðingabúðar en Halldór hljóp þegar eftir honum og hjó hann í
búðardurunum til bana.
Þessi tíðindi komu til búðar Snorra goða að Þorgils Hölluson var veginn.
Snorri segir: "Eigi mun þér skilist hafa. Þorgils Hölluson mun vegið hafa."
Maðurinn segir: "Enda fauk höfuðið af bolnum."
"Þá má vera að satt sé," segir Snorri.
Sæst var á víg þessi sem í sögu Þorgils Höllusonar segir.

68. kafli - Kvonfang Þorkels
Það sama sumar er Þorgils Hölluson var veginn kom skip í Bjarnarhöfn. Það
átti Þorkell Eyjólfsson. Hann var þá svo auðigur maður að hann átti tvo
knörru í förum. Annar kom í Hrútafjörð á Borðeyri og var hvortveggi viði
hlaðinn. Og er Snorri goði spurði útkomu Þorkels ríður hann þegar til skips.
Þorkell tók við honum með allri blíðu. Þorkell hafði og mikinn drykk á skipi
sínu. Var veitt allkappsamlega. Varð þeim og margt talað. Spurði Snorri
tíðinda af Noregi. Þorkell segir frá öllu vel og merkilega. Snorri segir í
mót þau tíðindi sem hér höfðu gerst meðan Þorkell hafði utan verið.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.