Hann svarar: "Séð hefi eg það að eg ætla að tíðindum muni gegna."
Helgi spyr hvað það væri.
Hann kvaðst séð hafa menn eigi allfá "og hygg eg að vera munu
utanhéraðsmenn."
Helgi mælti: "Hvar voru þeir er þú sást þá eða hvað höfðust þeir að eða
hugðir þú nokkuð að klæðabúnaði þeirra eða yfirlitum?"
Hann svarar: "Ekki varð mér þetta svo mjög um felmt að eg hugleiddag eigi
slíka hluti því að eg vissi að þú mundir eftir spyrja."
Hann sagði og að þeir væru skammt frá selinu og þeir átu þar dagverð. Helgi
spyr hvort þeir sætu í hvirfingi eða hver út frá öðrum. Hann kvað þá í
hvirfingi sitja í söðlum.
Helgi mælti: "Seg mér nú frá yfirlitum þeirra. Vil eg vita ef eg megi nokkuð
ráða að líkindum hvað manna þetta sé."
Sveinninn mælti: "Þar sat maður í steindum söðli og í blárri kápu. Sá var
mikill og drengilegur, vikóttur og nokkuð tannber."
Helgi segir: "Þenna mann kenni eg gerla að frásögn þinni. Þar hefir þú séð
Þorgils Hölluson vestan úr Hörðadal. Eða hvað mun hann vilja oss kappinn?"
Sveinninn mælti: "Þar næst sat maður í gylltum söðli. Sá var í
skarlatskyrtli rauðum og hafði gullhring á hendi og var hnýtt gullhlaði um
höfuð honum. Sá maður hafði gult hár og liðaðist allt á herðar niður. Hann
var ljóslitaður og liður á nefi og nokkuð hafið upp framan nefið, eygður
allvel, bláeygur og snareygur og nokkuð skoteygur, ennibreiður og fullur að
vöngum. Hann hafði brúnaskurð á hári og hann var vel vaxinn um herðar og
þykkur undir hönd. Hann hafði allfagra hönd og sterklegan handlegg og allt
var hans látbragð kurteislegt og því orði lýk eg á að eg hefi engan mann séð
jafnvasklegan að öllu. Hann var og unglegur maður svo að honum var ekki grön
vaxin. Sýndist mér sem þrútinn mundi vera af trega."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.