Brátt er Vermundur kom heim vakti Halli berserkur til þess við Vermund að
hann mundi fá honum kvonfang mjög sæmilegt. En Vermundur þóttist eigi vita
von þeirrar konu af góðum ættum er sig mundi binda við berserk né sín forlög
og hafði Vermundur undandrátt um þetta mál. En er Halli fann það sló hann á
sig úlfúð og illsku og fór þá allt í þverúð með þeim. Gerðu berserkir sig
stóra og ómjúka við Vermund. Tók Vermundur þá að iðrast að hann hafði
berserkina á hendur tekist.
Um haustið hafði Vermundur boð mikið og bauð Arnkatli goða til sín og
Eyrbyggjum og Styr bróður sínum. Og er boðinu var lokið bauð Vermundur að
gefa Arnkatli berserkina og kallar það best henta, en hann vill eigi þiggja.
Þá leitar Vermundur ráðs við Arnkel hversu hann skal af sér koma þessu
vandræði en hann lagði það til að hann skyldi gefa Styr, kallar honum best
fallið að hafa slíka menn fyrir sakir ofsa og ójafnaðar.
Og er Styr var brott búinn gekk Vermundur að honum og mælti: "Nú vildi eg
bróðir að við legðum niður fæð þá er með okkur var áður eg fór utan en við
tækjum upp holla frændsemi með góðri vináttu og þar með vil eg gefa þér menn
þá er eg hefi út flutt þér til styrktar og fylgdar og veit eg eigi þeirra
manna von að traust muni til hafa að stríða við þig ef þú hefir slíka
sporgöngumenn sem þeir eru."
Styr svarar: "Vel vil eg því taka frændi að batni frændsemi okkur en þá eina
frétt hefi eg til þessa manna er þú hefir út flutt að það mun heldur vera
vandræðatak en menn muni framkvæmd eða auðnu af þeim hljóta. Nú vil eg
aldrei að þeir komi í mín híbýli því að ærnar eru mínar óvinsældir þó að eg
hljóti eigi vandræði af þeim."
"Hvert ráð gefur þú þá til frændi," segir Vermundur, "að eg komi þessu
vandræði af mér?"

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.