Jarl svarar: "Þar beiddist þú þess er mér sýnist að þér muni engi nytsemd í
verða þó að eg veiti þér. Hygg eg að þeir verði þér stirðir og skapstórir
þegar er þér kaupist við. Hygg eg það flestum bóndasonum ofurefli að stýra
þeim eða halda hræddum þó að þeir hafi mér hlýðnir verið í sinni þjónustu."
Vermundur kvaðst mundu til hætta að taka við þeim ef jarl vildi gefa þá í
hans vald. Jarl bað hann leita fyrst við berserkina ef þeir vildu honum
fylgja.
Hann gerði svo, leitaði ef þeir vildu fara með honum til Íslands og veita
honum fylgd og sporgöngu en hann hét í mót að gera vel til þeirra um þá
hluti er þeim þætti sig varða og þeir kynnu honum til að segja.
Berserkirnir kváðust eigi hafa sett hug sinn eftir að fara til Íslands.
Létust þeir og eigi vita von þar þeirra höfðingja er þeim þætti sér hent að
þjóna "en ef þú kostgæfir svo mjög Vermundur að við skulum fara til Íslands
með þér máttu svo ætla að við munum því illa kunna ef þú veitir okkur eigi
slíkt er við beiðum ef þú hefir föng á."
Vermundur kvað það og eigi vera skyldu. Eftir það fékk hann jáyrði af þeim
að fara með sér til Íslands ef það væri jarls vilji og samþykki.
Nú segir Vermundur jarli hvar þá var komið.
Jarl veitti þá úrskurð að berserkirnir skulu fara með honum til Íslands "ef
þér þykir það þín sæmd mest ger," en bað hann svo hugsa að honum mundi
fjandskapur í þykja ef hann lýkur illa við þá svo sem þeir eru nú á hans
vald komnir.
En Vermundur kvaðst eigi mundu þurfa til þess að taka. Eftir það fór
Vermundur til Íslands með berserkina og varð vel reiðfara og kom heim í
Bjarnarhöfn til bús síns hið sama sumar sem Eiríkur rauði fór til Grænlands,
sem fyrr er ritað.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.