62. kafli
Þorgils býst nú heiman og ríða þeir upp eftir Hörðadal tíu saman. Þar var
Þorgils Hölluson flokkstjóri. Þar voru í ferð synir Bolla, Bolli og
Þorleikur, Þórður köttur var hinn fjórði, bróðir þeirra, fimmti Þorsteinn
svarti, sétti Lambi, sjöundi og átti Halldór og Örnólfur, níundi Sveinn,
tíundi Húnbogi. Þeir voru synir Álfs úr Dölum. Þessir voru allir víglegir.
Þeir ríða leið sína upp til Sópandaskarðs og yfir Langavatnsdal og svo yfir
Borgarfjörð þveran. Þeir riðu að Eyjarvaði yfir Norðurá en að Bakkavaði yfir
Hvítá, skammt frá Bæ ofan. Riðu þeir Reykjardal og svo yfir hálsinn til
Skorradals og svo upp eftir skóginum í nánd bænum að Vatnshorni, stíga þar
af hestum sínum. Var þá mjög kveldið á liðið.
Bærinn að Vatnshorni stendur skammt frá vatninu fyrir sunnan ána. Þorgils
mælti þá við förunauta sína að þeir mundu þar vera um nóttina "og mun eg
fara heim til bæjarins á njósn að forvitnast hvort Helgi sé heima. Mér er
sagt að Helgi hafi heldur fámennt oftast en sé allra manna varastur um sig
og hvíli í rammlegri lokrekkju."
Förunautar Þorgils báðu hann fyrir sjá. Gerir Þorgils nú klæðaskipti,
steypir af sér kápu blárri en tók yfir sig voskufl einn grán. Hann fer heim
til bæjarins og er hann var kominn nálega að garði þá sér hann mann ganga í
móti sér.
Og er þeir finnast mælti Þorgils: "Þér mun eg þykja ófróðlega spyrja félagi.
Hvar er eg kominn í sveit eða hvað heitir bær sjá eða hver býr hér?"
Maðurinn svarar: "Þú munt vera furðu heimskur maður og fávís ef þú hefir
eigi heyrt getið Helga Harðbeinssonar, hins mesta garps og mikilmennis."
Þorgils spyr þá hversu góður Helgi væri viðtakna ef ókunnir menn koma til
hans og þeir er mjög þurfa ásjá.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.