Og er þeir voru á brott farnir kvað Þórarinn vísu:
Erat sem gráps fyr glæpi,
grund fagrvita mundar,
fúra fleygiáru
frænings lögum ræni
ef sannvitendr sunnu,
sé eg þeira lið meira,
oss megni goð gagni,
Gauts þekju mig sekja.
Snorri goði reið upp um háls til Hrísa og svo til Drápuhlíðar og um
morguninn út til Svínavatns og svo til Hraunsfjarðar og þaðan, sem leið
liggur, út til Tröllaháls og létti eigi ferðinni fyrr en við Salteyrarós. En
er þeir komu þar varðveittu sumir Austmennina en sumir brenndu skipið og
riðu þeir Snorri goði svo heim, að þetta allt var gert.
Arnkell spyr þetta, að Snorri hefir brennt skipið. Þá gengu þeir á skip
Vermundur og Þórarinn með nokkura menn og reru vestur um fjörð til
Dögurðarness. Þar stóð skip uppi er Austmenn áttu. Þeir Arnkell og Vermundur
keyptu það skip og gaf Arnkell Þórarni hálft skipið en Vermundur bjó sinn
hluta. Þeir fluttu skipið út í Dímun og bjuggu þar. Sat Arnkell þar við til
þess er þeir voru búnir og fór síðan með þeim út um Elliðaey og skildu þar
með vináttu. Sigldu þeir Þórarinn á haf en Arnkell fór heim til bús síns og
lagðist sá orðrómur á að þessi liðveisla þætti hin skörulegasta.
Snorri goði fór til Þórsnessþings og hélt fram málum sínum. Varð Þórarinn
þar sekur og allir þeir er að vígum höfðu verið en eftir þingið heimti
Snorri sér slíkt er hann fékk af sektarfé og lauk svo þessum málum.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.