Þá mælti Álfgeir stýrimaður: "Veita munum vér þér allt það er vér megum hvað
sem þú vilt upp taka."
Þórarinn svarar: "Eigi nenni eg nú lengur hér að standa."
Eftir þetta hlaupa þeir Þórarinn út og vilja hleypa upp dóminum. Þeir voru
sjö saman og sló þegar í bardaga. Þórarinn vó húskarl Þorbjarnar en Álfgeir
annan. Þar féll og húskarl Þórarins. Ekki festi vopn á Oddi Kötlusyni.
Auður húsfreyja hét á konur að skilja þá og köstuðu þær klæðum á vopn
þeirra.
Eftir það gengur Þórarinn inn og hans menn en þeir Þorbjörn riðu í brott og
sneru áður málum til Þórsnessþings. Þeir riðu upp með voginum og bundu sár
sín undir stakkgarði þeim er Korngarður heitir.
Í túninu í Mávahlíð fannst hönd þar sem þeir höfðu barist og var sýnd
Þórarni. Hann sá að þetta var konuhönd. Hann spurði hvar Auður var. Honum
var sagt að hún lá í sæng sinni. Þá gekk hann til hennar og spurði hvort hún
var sár. Auður bað hann ekki um það hirða en hann varð þó vís að hún var
handhöggin. Kallar hann þá á móður sína og bað hana binda sár hennar.
Þá gekk Þórarinn út og þeir félagar og runnu eftir þeim Þorbirni. Og er þeir
áttu skammt til garðsins heyrðu þeir mælgi til þeirra Þorbjarnar og tók
Hallsteinn til orða og mælti: "Af sér rak Þórarinn ragmælið í dag."
"Djarflega barðist hann," segir Þorbjörn, "en margir verða vaskir í
einangrinum þó að lítt séu vaskir þess í milli."
Oddur svarar: "Þórarinn mun vera hinn röskvasti maður en slys mun það þykja
er hann henti þá er hann hjó höndina af konu sinni."
"Var það satt?" segir Þorbjörn.
"Satt sem dagur," segir Oddur.
Þá hljópu þeir upp og gerðu að þessu mikla sköll og hlátur.
Í þessu komu þeir Þórarinn eftir og varð Nagli skjótastur. En er hann sá að
þeir ofruðu vopnunum glúpnaði hann og hljóp umfram og í fjallið upp og varð
að gjalti.
Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.