En er Oddur kom til Fróðár virtu þeir Þorbjörn sem Spá-Gils hefði nokkurar
sneiðir stungið Máhlíðingum um mál þessi. Sagði Oddur og að hann hafði svo
mælt að þeir væru líkastir til hrossatöku er sjálfir voru févana og höfðu þó
aukið hjónum úr því sem vandi var til. Í þessum orðum þótti Þorbirni kveðið
á Máhlíðinga.
Eftir þetta reið Þorbjörn heiman við tólfta mann. Hallsteinn sonur hans var
þar í för en Ketill kappi, annar sonur hans, var þá utanlands. Þar var
Þórir, sonur Arnar af Arnarhvoli, nábúi Þorbjarnar, hinn röskvasti maður.
Oddur Kötluson var í þessi ferð. En er þeir komu í Holt til Kötlu færði hún
Odd son sinn í kyrtil móbrúnan er hún hafði þá nýgert.
Síðan fóru þeir í Mávahlíð og var Þórarinn og heimamenn í dyrum úti er þeir
sáu mannferðina. Þeir kvöddu Þorbjörn og spurðu tíðinda.
Síðan mælti Þorbjörn: "Það er vort erindi hingað Þórarinn," segir hann, "að
vér leitum eftir hrossum þeim er stolin voru frá mér í haust. Viljum vér hér
beiða rannsóknar hjá yður."
Þórarinn svarar: "Er rannsókn þessi nokkuð með lögum upp tekin eða hafið þér
nokkura lögsjáendur til kvadda að skynja þetta mál eða viljið þér nokkur
grið selja oss í rannsókn þessi eða hafið þér nokkuð víðara farið til
rannsóknar?"
Þorbjörn svarar: "Ekki ætlum vér að víðar þurfi þessa rannsókn að fremja."
Þórarinn svarar: "Þá viljum vér þverlega þessar rannsóknar synja ef þér
viljið aflaga eftir leita og upp hefja."
Þorbjörn svarar: "Þá munum vér það fyrir satt hafa að þú sért sannur að
sökinni er þú vilt þig eigi láta undan bera með rannsókninni."
"Gerið það sem yður líkar," segir Þórarinn.
Eftir það setti Þorbjörn dyradóm og nefndi sex menn í dóm. Síðan sagði
Þorbjörn fram sökina á hendur Þórarni um hrossatökuna.
Þá gekk Geirríður út í dyrnar og sá hvað er títt var og mælti: "Of satt er
það er mælt er að meir hefir þú Þórarinn kvenna skap en karla er þú skalt
þola Þorbirni digra hverja skömm og eigi veit eg hví eg á slíkan son."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.