Hann var nýkominn þá út og var á vist með Þorsteini mági sínum. Halldór
sendir orð Þorsteini svarta og Helga mági hans. En er þeir komu í
Hjarðarholt segir Halldór þeim ætlan sína og ráðagerð og bað þá til ferðar
með sér. Þorsteinn lét illa yfir þessi ætlan: "Er það hinn mesti geigur að
þér frændur skuluð drepast niður á leið fram. Eru nú fáir slíkir menn í
yðvarri ætt sem Bolli er."
En þó að Þorsteinn mælti slíkt þá kom fyrir ekki.
Halldór sendir orð Lamba föðurbróður sínum og er hann kom á fund Halldórs þá
sagði hann honum ætlan sína. Lambi fýsti mjög að þetta skyldi fram ganga.
Þorgerður húsfreyja var og mikill hvatamaður að þessi ferð skyldi takast,
kvaðst aldrei hefnt þykja Kjartans nema Bolli kæmi fyrir.
Eftir þetta búast þeir til ferðar. Í þessi ferð voru þeir Ólafssynir fjórir,
hinn fimmti var Barði, þessir voru Ólafssynir: Halldór og Steinþór, Helgi og
Höskuldur, en Barði var son Guðmundar, sétti Lambi, sjöundi Þorsteinn, átti
Helgi mágur hans, níundi Án hrísmagi. Þorgerður réðst og til ferðar með
þeim. Heldur löttu þeir þess og kváðu slíkt ekki kvennaferðir. Hún kvaðst að
vísu fara skyldu "því að eg veit gerst um yður sonu mína að þurfið þér
brýningina."
Þeir segja hana ráða mundu.

55. kafli - Af heimanferð
Eftir það ríða þeir heiman úr Hjarðarholti níu saman. Þorgerður var hin
tíunda. Þau ríða inn eftir fjörum og svo til Ljárskóga. Það var öndverða
nótt, létta ei fyrr en þau koma í Sælingsdal þá er nokkuð var morgnað.
Skógur þykkur var í dalnum í þann tíð. Bolli var þar í seli sem Halldór
hafði spurt. Selin stóðu við ána þar sem nú heita Bollatóftir. Holt mikið
gengur fyrir ofan selið og ofan að Stakkagili. Milli hlíðarinnar og holtsins
er engi mikið er í Barmi heitir. Þar unnu húskarlar Bolla. Þeir Halldór og
hans förunautar riðu að Öxnagróf, yfir Ránarvöllu og svo fyrir ofan
Hamarengi. Það er gegnt selinu. Þeir vissu að margt manna var að selinu,
stíga af baki og ætluðu að bíða þess er menn færu frá selinu til verks.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.