54. kafli - Af Halldóri og Barða
Nú segir Halldór Barða í hljóði að þeir bræður ætla að fara að Bolla og
sögðust eigi lengur þola frýju móður sinnar: "Er ekki því að leyna Barði
frændi að mjög var undir heimboði við þig að vér vildum hér til hafa þitt
liðsinni og brautargengi."
Þá svarar Barði: "Illa mun það fyrir mælast að ganga á sættir við frændur
sína en í annan stað sýnist mér Bolli torsóttlegur. Hann hefir margt manna
um sig en er sjálfur hinn mesti garpur. Þar skortir og eigi viturlegar
ráðagerðir er þau eru Guðrún og Ósvífur. Þykir mér við þetta allt saman
óauðsóttlegt."
Halldór segir: "Hins munum vér þurfa að torvelda ekki þetta mál fyrir oss.
Hefi eg og þetta eigi fyrri upp kveðið en það mun framgengt verða að vér
munum til leita hefndanna við Bolla. Vænti eg og frændi að þú skerist eigi
undan ferð þessi með oss."
Barði svarar: "Veit eg að þér mun ósannlegt þykja að eg víkist undan. Mun eg
það og eigi gera ef eg sé að eg fæ eigi latt."
"Þá hefir þú vel af máli," segir Halldór, "sem von var að."
Barði sagði að þeir mundu verða ráðum að að fara.
Halldór kvaðst spurt hafa að Bolli hafði sent heiman menn sína, suma norður
til Hrútafjarðar til skips en suma út á Strönd: "Það er mér og sagt að Bolli
sé að seli í Sælingsdal og sé þar ekki fleira manna en húskarlar þeir er þar
vinna heyverk. Sýnist mér svo sem eigi muni í annað sinn sýnna að leita til
fundar við Bolla en nú."
Og þetta staðfesta þeir með sér, Halldór og Barði.
Maður hét Þorsteinn svarti. Hann bjó í Hundadal í Breiðafjarðardölum, vitur
maður og auðigur. Hann hafði verið langan tíma vinur Ólafs pá. Systir
Þorsteins hét Solveig. Hún var gift þeim manni er Helgi hét og var
Harðbeinsson. Helgi var mikill maður og sterkur og farmaður mikill.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.