17. kafli
Á þessu þingi deildu þeir Þorgrímur Kjallaksson og synir hans við Illuga
svarta um mund og heimanfylgju Ingibjargar Ásbjarnardóttur, konu Illuga, er
Tin-Forni hafði átt að varðveita.
Um þingið voru stormar miklir svo að engi maður mátti koma til þingsins af
Meðalfellsströnd. Hamlaði það mjög afla Þorgríms að frændur hans komu eigi.
Illugi hafði hundrað manna og einvalalið og hélt hann fram málunum en
Kjalleklingar gengu að dóminum og vildu upp hleypa. Var þá þröng mikil. Áttu
menn þá hlut í að skilja þá. Kom þá svo að Tin-Forni greiddi féið að tölum
Illuga.
Svo kvað Oddur skáld í Illugadrápu:
Vestr var þröng á þingi
Þórsness, með hug stórum
höppum studdr þar er hodda
hjálmraddar stafr kvaddi.
Snarráðan kom síðan,
sætt var ger með hætti,
Forna sjóðs und fæði
farmr dólgsvölu barma.
Eftir það létti upp storminum og komu Kjalleklingar vestan af ströndinni.
Vildi Þorgrímur Kjallaksson þá eigi halda sættina og veitir þeim Illuga
atgöngu. Tókst þar þá bardagi. Snorri goði bað sér þá manna til meðalgöngu
og komu á griðum með þeim. Þar féllu þrír menn af Kjalleklingum en fjórir af
Illuga. Styr Þorgrímsson vó þar tvo menn.
Svo segir Oddur í Illugadrápu:
Drótt gekk sýnt á sættir
svellendr en þar fellu
þremja svells fyr þolli
þrír andvöku randa
áðr kynfrömuðr kæmi
kvonar hreggs við seggi,
frægt gerðist það fyrða
forráð, griðum, Snorri.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.