Hann var kallaður mannasættir. Hann var eigi fémikill og hafði þó bú
gagnsamt. Svo var hann maður óhlutdeilinn að óvinir hans mæltu að hann hefði
eigi síður kvenna skap en karla. Hann var kvongaður maður og hét Auður kona
hans. Guðný var systir hans er átti Vermundur mjóvi.
Í Holti út frá Mávahlíð bjó ekkja sú er Katla hét. Hún var fríð kona sýnum
en eigi var hún við alþýðuskap. Oddur hét sonur hennar. Hann var mikill
maður og knár, hávaðamaður mikill og málugur, slysinn og rógsamur.
Gunnlaugur sonur Þorbjarnar digra var námgjarn. Hann var oft í Mávahlíð og
nam kunnáttu að Geirríði Þórólfsdóttur því að hún var margkunnig.
Það var einn dag er Gunnlaugur fór í Mávahlíð að hann kom í Holt og talaði
mart við Kötlu en hún spurði hvort hann ætlar þá enn í Mávahlíð "og klappa
um kerlingarnárann?"
Gunnlaugur kvað eigi það sitt erindi "en svo að eins ertu ung, Katla, að
eigi þarftu að bregða Geirríði elli."
Katla svarar: "Eigi hugði eg að það mundi líkt vera en engu skiptir það,"
segir hún. "Engi þykir yður nú kona nema Geirríður ein en fleiri konur kunna
sér enn nokkuð en hún ein."
Oddur Kötluson fór oft með Gunnlaugi í Mávahlíð. En er þeim varð síð aftur
farið bauð Katla Gunnlaugi oft þar að vera en hann fór jafnan heim.

16. kafli
Það var einn dag öndverðan vetur þann er Snorri gerði fyrst bú að Helgafelli
að Gunnlaugur Þorbjarnarson fór í Mávahlíð og Oddur Kötluson með honum. Þau
Gunnlaugur og Geirríður töluðu þá löngum um daginn.
Og er mjög leið á kveldið mælti Geirríður við Gunnlaug: "Það vildi eg að þú
færir eigi heim í kveld því að margir eru marlíðendur. Eru og oft flögð í
fögru skinni en mér líst nú eigi sem hamingjusamlegast á þig."
Gunnlaugur svarar: "Eigi mun mig saka," segir hann, "er við erum tveir
saman."
Hún svarar: "Ekki gagn mun þér að Oddi verða enda muntu sjálfur gjalda
einræðis þíns."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.