Ósvífurssynir fóru utan það sumar og kom engi þeirra út síðan. Lauk þar
eftirmáli að Ólafur þótti hafa vaxið af því að hann lét þar með beini ganga
er maklegast var, þar er þeir voru Ósvífurssynir, en hlífði Bolla fyrir
frændsemis sakir. Ólafur þakkaði mönnum vel liðveislu. Bolli hafði landkaup
í Tungu að ráði Ólafs.
Það er sagt að Ólafur lifði þrjá vetur síðan Kjartan var veginn. En síðan er
hann var allur skiptu þeir synir hans arfi eftir hann. Tók Halldór bústað í
Hjarðarholti. Þorgerður móðir þeirra var með Halldóri. Hún var mjög
heiftarfengin til Bolla og þótti sár fósturlaunin hans og ómaklega á koma.

52. kafli
Þau Bolli og Guðrún settu bú saman um vorið í Sælingsdalstungu og varð það
brátt reisulegt. Þau Bolli og Guðrún gátu son. Þeim sveini var nafn gefið og
kallaður Þorleikur. Hann var vænn sveinn snemma og vel fljótlegur. Halldór
Ólafsson bjó í Hjarðarholti sem fyrr var ritað. Hann var mjög fyrir þeim
bræðrum.
Það vor að Kjartan var veginn tók Þorgerður Egilsdóttir vist frændsveini
sínum með Þorkatli að Hafratindum. Sveinninn gætti þar fjár um sumarið.
Honum var Kjartan mjög harmdauði sem öðrum. Hann mátti aldrei tala til
Kjartans svo að Þorkell væri hjá því að hann mælti jafnan illa til hans og
kvað hann verið hafa hvítan mann og huglausan og hermdi hann oft eftir
hvernig hann hafði við orðið áverkann. Sveininum varð að þessu illa getið og
fer í Hjarðarholt og segir til Halldóri og Þorgerði og bað þau viðtöku.
Þorgerður bað hann vera í vist sinni til vetrar.
Sveinninn kvaðst eigi hafa þrótt til að vera þar lengur "og mundir þú mig
eigi biðja þessa ef þú vissir hversu mikla raun eg hefi af þessu."
Þá gekkst Þorgerði hugur við harmtölur hans og kvaðst mundu láta honum uppi
vist fyrir sína hönd.
Halldór segir: "Gef ekki gaum sveini þessum því að hann er ómerkur."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.