En er þeir voru að tíðindum spurðir þá sögðu þeir dráp Gísla Súrssonar og
þeirra manna er látist höfðu fyrir honum áður hann féll. Við þessi tíðindi
varð Börkur allgleymur og bað Þórdísi og Snorra að þau skyldu fagna Eyjólfi
sem best, þeim manni er svo mikla skömm hafði rekið af höndum þeim frændum.
Snorri lét sér fátt um finnast um þessi tíðindi en Þórdís segir að þá var
vel fagnað "ef grautur er gefinn Gíslabana."
Börkur svarar: "Eigi hlutast eg til málsverða."
Börkur skipar Eyjólfi í öndvegi en förunautum hans utar frá honum. Þeir
skutu vopnum sínum á gólfið. Börkur sat innar frá Eyjólfi en þá Snorri.
Þórdís bar innar grautartrygla á borð og hélt með á spónum og er hún setti
fyrir Eyjólf þá féll niður spónn fyrir henni. Hún laut niður eftir og tók
sverð hans Eyjólfs og brá skjótt og lagði síðan upp undir borðið og kom í
lær Eyjólfi en hjaltið nam við borðinu og varð þó sárið mikið. Börkur hratt
fram borðinu og sló til Þórdísar. Snorri hratt Berki svo að hann féll við en
tók til móður sinnar og setti hana niður hjá sér og kvað ærnar skapraunir
hennar þótt hún væri óbarin. Eyjólfur hljóp upp og hans menn og hélt þar
maður á manni.
Þar urðu þær málalyktir að Börkur seldi Eyjólfi sjálfdæmi og gerði hann
mikið fé sér til handa fyrir áverkann. Fór hann við það í brott. Af þessu óx
mjög óþokki með þeim Berki og Snorra.

14. kafli
Á vorþingi um sumarið heimti Snorri föðurarf sinn af Berki. Börkur svarar
svo að hann mundi gjalda honum föðurarf sinn "en eigi nenni eg," segir hann,
"að skipta Helgafelli sundur. En eg sé að okkur er eigi hent að eiga saman
tvíbýli og vil eg leysa landið til mín."
Snorri svarar: "Það þykir mér jafnlegast að þú leggir land svo dýrt sem þér
líkar en eg kjósi hvor okkar leysa skal."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.