Steinþór var framast barna Þorláks. Hann var mikill maður og sterkur og
manna vopnfimastur og hinn mesti atgervismaður. Hógvær var hann
hversdaglega. Steinþór var til þess tekinn að hinn þriðji maður hafi best
verið vígur á Íslandi með þeim Helga Droplaugarsyni og Vémundi kögur.
Þormóður var vitur maður og stilltur vel. Þórður blígur var ákafamaður
mikill og örorður. Bergþór var yngstur og þó hinn efnilegasti.

13. kafli
Snorri Þorgrímsson var þá fjórtán vetra er hann fór utan með fóstbræðrum
sínum, Þorleifi kimba og Þóroddi. Börkur hinn digri, föðurbróðir hans, galt
honum fimm tigu silfurs til utanferðar.
Þeir urðu vel reiðfari og komu til Noregs um haustið. Þeir voru um veturinn
á Rogalandi. Snorri var með Erlingi Skjálgssyni á Sóla og var Erlingur vel
til hans því að þar hafði verið forn vinátta með hinum fyrrum frændum
þeirra, Hörða-Kára og Þórólfi Mostrarskegg.
Um sumarið eftir fóru þeir til Íslands og urðu síðbúnir. Þeir höfðu harða
útivist og komu litlu fyrir vetur í Hornafjörð.
En er þeir bjuggust frá skipi, Breiðfirðingarnir, þá skaust þar mjög í tvö
horn um búnað þeirra Snorra og Þorleifs kimba. Þorleifur keypti þann hest er
hann fékk bestan. Hann hafði og steindan söðul allglæsilegan. Hann hafði
búið sverð og gullrekið spjót, myrkblán skjöld og mjög gylltan, vönduð öll
klæði. Hann hafði þar og til varið mjög öllum sínum fararefnum. En Snorri
var í svartri kápu og reið svörtu merhrossi góðu. Hann hafði fornan
trogsöðul og vopn lítt til fegurðar búin. Búnaður Þórodds var þar á milli.
Þeir riðu austan um Síðu og svo sem leið liggur vestur til Borgarfjarðar og
svo vestur um Flötu og gistu í Álftafirði.
Eftir það reið Snorri til Helgafells og ætlar þar að vera um veturinn.
Börkur tók því fálega og höfðu menn það mjög að hlátri um búnað hans. Tók
Börkur svo á að honum hefði óheppilega með féið farist er öllu var eytt.
Það var einn dag öndverðan vetur að Helgafelli að þar gengu inn tólf menn
alvopnaðir. Þar var Eyjólfur hinn grái, frændi Barkar, sonur Þórðar gellis.
Hann bjó í Otradal vestur í Arnarfirði.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.