Þórður hafði það upphaf gerðarinnar að hann kallar að sá skal hafa happ er
hlotið hefir, kvað þar engi víg bæta skulu þau er orðið höfðu á Þórsnesi eða
áverka, en völlinn kallar hann spilltan af heiftarblóði er niður hafði komið
og kallar þá jörð nú eigi helgari en aðra og kallar þá því valda er fyrri
gerðust til áverka við aðra. Kallaði hann það eitt friðbrot verið hafa,
sagði þar og eigi þing skyldu vera síðan. En til þess að þeir væru vel
sáttir og vinir þaðan af þá gerði hann það að Þorgrímur Kjallaksson skyldi
halda uppi hofinu að helmingi og hafa hálfan hoftoll og svo þingmenn að
helmingi, veita og Þorsteini til allra mála þaðan af og styrkja hann til
hveriga helgi sem hann vill á leggja þingið þar sem næst verði sett. Hér með
gifti Þórður gellir Þorgrími Kjallakssyni Þórhildi frændkonu sína, dóttur
Þorkels meinakurs, nábúa síns. Var hann af því kallaður Þorgrímur goði.
Þeir færðu þá þingið inn í nesið þar sem nú er. Og þá er Þórður gellir
skipaði fjórðungaþing lét hann þar vera fjórðungsþing Vestfirðinga. Skyldu
menn þangað til sækja um alla Vestfjörðu. Þar sér enn dómhring þann er menn
voru dæmdir í til blóts. Í þeim hring stendur Þórs steinn er þeir menn voru
brotnir um er til blóta voru hafðir og sér enn blóðslitinn á steininum. Var
á því þingi hinn mesti helgistaður en eigi var mönnum þar bannað að ganga
örna sinna.

11. kafli
Þorsteinn þorskabítur gerðist hinn mesti rausnarmaður. Hann hafði með sér
jafnan sex tigu frelsingja. Hann var mikill aðdráttamaður og var jafnan í
fiskiróðrum. Hann lét fyrst reisa bæinn að Helgafelli og færði þangað bú
sitt og var þar hinn mesti hofstaður í það mund. Hann lét og bæ gera þar í
nesinu, nær því sem þingið hafði verið. Þann bæ lét hann og mjög vanda og
gaf hann síðan Þorsteini surt, frænda sínum. Bjó hann þar síðan og varð hinn
mesti spekingur að viti.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.