Nú verða við varir Skógstrendingar, Þorgestur hinn gamli og Áslákur úr
Langadal. Þeir hljópu til og gengu í milli, en hvorirtveggju voru hinir
óðustu, og fengu eigi skilið þá áður en þeir hétu að veita þeim er þeirra
orð vildu heyra til skilnaðarins, og við það urðu þeir skildir og þó með því
móti að Kjalleklingar náðu eigi að ganga upp á völlinn og stigu þeir á skip
og fóru brott af þinginu.
Þar féllu menn af hvorumtveggjum og fleiri af Kjalleklingum en fjöldi varð
sár. Griðum varð engum á komið því að hvorgir vildu þau selja og hétu hvorir
öðrum aðförum þegar því mætti við koma. Völlurinn var orðinn alblóðugur þar
er þeir börðust og svo þar er Þórsnesingar stóðu meðan barist var.

10. kafli
Eftir þingið höfðu hvorirtveggju setur fjölmennar og voru þá dylgjur miklar
með þeim. Vinir þeirra tóku það ráð að senda eftir Þórði gelli er þá var
mestur höfðingi í Breiðafirði. Hann var frændi Kjalleklinga en námágur
Þorsteins. Þótti hann líkastur til að sætta þá.
En er Þórði kom þessi orðsending fór hann til við marga menn og leitar um
sættir. Fann hann að stórlangt var í millum þeirra þykkju en þó fékk hann
komið á griðum með þeim og stefnulagi.
Þar urðu þær málalyktir að Þórður skyldi gera um með því móti að
Kjalleklingar skildu það til að þeir mundu aldrei ganga í Dritsker örna sinn
en Þorsteinn skildi það til að Kjalleklingar skyldu eigi saurga völlinn nú
heldur en fyrr. Kjalleklingar kölluðu alla þá hafa fallið óhelga, er af
Þorsteini höfðu fallið, fyrir það er þeir höfðu fyrr með þann hug að þeim
farið að berjast. En Þórsnesingar sögðu Kjalleklinga alla óhelga fyrir
lagabrot það er þeir gerðu á helguðu þingi. En þó að vandlega væri undir
skilið gerðina þá játaði Þórður að gera og vildi heldur það en þeir skildu
ósáttir.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.