Kjartan býst snemma fimmtadag í páskaviku og Þorkell hvelpur og Knútur
bróðir hans að ráði Auðar. Þeir riðu með Kjartani á leið alls tólf saman.
Kjartan kemur fyrir Hvítadal og heimti vaðmál Þórhöllu málgu sem hann hét.
Síðan reið hann suður Svínadal.
Það var tíðinda að Laugum í Sælingsdal að Guðrún var snemma á fótum þegar er
sólu var ofrað. Hún gekk þangað til er bræður hennar sváfu. Hún tók á
Óspaki. Hann vaknaði skjótt við og svo þeir fleiri bræður. Og er Óspakur
kenndi þar systur sína þá spurði hann hvað hún vildi er hún var svo snemma á
fótum. Guðrún kvaðst vildu vita hvað þeir vildu að hafast um daginn. Óspakur
kvaðst mundu kyrru fyrir halda "og er nú fátt til verknaðar."
Guðrún mælti: "Gott skaplyndi hefðuð þér fengið ef þér væruð dætur einshvers
bónda og láta hvorki að yður verða gagn né mein en slíka svívirðing og skömm
sem Kjartan hefir yður gert þá sofið þér eigi að minna að hann ríði hér hjá
garði við annan mann og hafa slíkir menn mikið svínsminni. Þykir mér og
rekin von að þér þorið Kjartan heim að sækja ef þér þorið eigi að finna hann
nú er hann fer við annan mann eða þriðja en þér sitjið heima og látið
vænlega og eruð æ helsti margir."
Óspakur kvað hana mikið af taka en vera illt til mótmæla og spratt hann upp
þegar og klæddist og hver þeirra bræðra að öðrum. Síðan bjuggust þeir að
sitja fyrir Kjartani. Þá bað Guðrún Bolla til ferðar með þeim. Bolli kvað
sér eigi sama fyrir frændsemis sakir við Kjartan og tjáði hversu ástsamlega
Ólafur hafði hann upp fæddan.
Guðrún svarar: "Satt segir þú það en eigi muntu bera giftu til að gera svo
að öllum þyki vel og mun lokið okkrum samförum ef þú skerst undan förinni."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.