"Já herra," sagði Búi, "yðar naut eg að því að vel fór Dofra til mín."
Konungur mælti: "Varstu með Dofra í vetur eða fékkstu taflið?"
"Já herra," sagði Búi, "fékk eg tafl."
Konungur mælti: "Kom til mín á morgun með það.
Búi kvað svo vera skyldu.
Um daginn eftir kom Búi fyrir konung er hann sat yfir drykkjuborðum og færði
honum taflið.
Og er konungur sá það mælti hann: "Þú ert mikill maður fyrir þér Búi," sagði
konungur, "hefir þú sannar jartegnir að þú hefir Dofra fundið. Þetta tafl
hefir hann aldrei viljað fyrir mér laust láta. En svo gildur sem þú ert þá
verðum vér að sjá nokkuð af þínu afli og skaltu fást við blámann vorn."
Búi segir: "Það hugði eg ef eg fengi taflið að þér munduð mig láta fara í
friði."
Konungur mælti: "Þetta er lítils vert að taka eitt fang."
Búi segir: "Dýrt er drottins orð. Vil eg það nú skilja til við yður herra ef
svo ólíklegt er að eg beri af honum að þér gefið mér upp reiði yðra og gott
orlof til Íslands."
Konungur játaði því. Eftir það lagði konungur til hálfs mánaðar stefnu að
þetta fang tækist því að hann vildi að sem flestir sæju. En er sú stund var
liðin þá lét konungur blása til öllu fólki út á víðan völl. Sem konungur og
mikið fjölmenni var þar komið þá bjóst Búi til fangs. Hann fór í skyrtu sína
þá er Esja hafði gefið honum og fyrr gátum vér. Síðan steypti hann yfir sig
fangastakki þeim er Rauður gaf honum, fór þá til leikmótsins. Konungur lét
þá leiða fram blámanninn og héldu á honum fjórir menn. Hann grenjaði fast og
lét tröllslega.
Þar var svo háttað að þar var sléttur völlur en þar um utan hæðir miklar.
Sat þar á fólkið umhverfis. Á vellinum stóð ein hella mikil og uppþunn niður
í völlinn. Það kölluðu þeir fanghellu.
Búi gekk þá fram fyrir konung og mælti: "Hvar er sá maður herra er þér ætlið
mér fang við?"
Konungur mælti: "Sjá hvar þeir halda honum fram á völlinn."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.