Án vildi hafa til vitni með sér um þetta mál og reið eftir Þórarni í
Sælingsdalstungu og hann fór til með Áni að taka upp sverðið. Eftir það
færði Án Kjartani sverðið. Kjartan vafði um dúki og lagði niður í kistu. Þar
heitir Sverðskelda síðan er þeir Þórólfur höfðu fólgið konungsnaut. Var nú
látið kyrrt yfir þessu en umgerðin fannst aldregi síðan. Kjartan hafði
jafnan minni mætur á sverðinu síðan en áður. Þetta lét Kjartan á sig bíta og
vildi eigi hafa svo búið.
Ólafur mælti: "Láttu þetta ekki á þig bíta. Hafa þeir sýnt ekki góðan prett
en þig sakar ekki. Látum eigi aðra eiga að því að hlæja að vér leggjum slíkt
til deilu þar er til móts eru vinir og frændur."
Og við þessar fortölur Ólafs lét Kjartan kyrrt vera.
Eftir þetta bjóst Ólafur að sækja heimboð til Lauga að veturnóttum og ræddi
um við Kjartan að hann skyldi fara. Kjartan var trauður til og hét þó
ferðinni að bæn föður síns. Hrefna skyldi og fara og vildi heima láta
moturinn.
Þorgerður húsfreyja spurði: "Hvenær skaltu upp taka slíkan ágætisgrip ef
hann skal í kistum liggja þá er þú ferð til boða?"
Hrefna svarar: "Margir menn mæla það að eigi sé örvæna að eg komi þar að eg
eigi færri öfundarmenn en að Laugum."
Þorgerður segir: "Ekki leggjum vér mikinn trúnað á þá menn er slíkt láta
fjúka hér í milli húsa."
En með því að Þorgerður fýsti ákaft þá hafði Hrefna moturinn en Kjartan
mælti þá eigi í mót er hann sá hversu móðir hans vildi.
Eftir þetta ráðast þau til ferðar og koma þau til Lauga um kveldið og var
þeim þar vel fagnað. Þorgerður og Hrefna selja klæði sín til varðveislu. En
um morguninn er konur skyldu taka búnað sinn þá leitar Hrefna að motrinum og
var þá í brottu þaðan sem hún hafði varðveitt og var þá víða leitað og
fannst eigi. Guðrún kvað það líkast að heima mundi eftir hafa orðið moturinn
eða hún mundi hafa búið um óvarlega og fellt niður. Hrefna sagði nú Kjartani
að moturinn var horfinn. Hann svarar og kvað eigi hægt hlut í að eiga að
gæta til með þeim og bað hana nú láta vera kyrrt, segir síðan föður sínum um
hvað að leika var.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.